Erlent

Kenna þolandanum um endalok House of Cards

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Anthony Rapp steig fram í lok október og sakaði Kevin Spacey um kynferðisofbeldi.
Anthony Rapp steig fram í lok október og sakaði Kevin Spacey um kynferðisofbeldi. Vísir/Getty

Anthony Rapp, leikarinn sem steig fram og sakaði Kevin Spacey um kynferðislega áreitni í lok október síðastliðnum, hefur fengið yfir sig holskeflu af illskeyttum skilaboðum frá aðdáendum Spacey eftir að ásakanirnar litu dagsins ljós. Aðdáendurnir kenna Rapp m.a. um að hafa, upp á sitt einsdæmi, bundið enda á framleiðslu þáttanna House of Cards.

Anthony Rapp, sem þá var fjórtán ára gamall, steig fram í lok október og greindi frá því að Spacey hafi boðið sér í teiti og að hann hafi virst vera drukkinn þegar áreitið átti sér stað.

„Hann tók mig upp eins og brúðgumi tekur upp brúði sína og heldur á henni yfir þröskuldinn. Ég reyndi ekki að streitast á móti í upphafi því ég hugsaði: „Hvað er í gangi?“ Síðan leggst hann ofan á mig,“ sagði Rapp um kynferðisofbeldið.

Að minnsta kosti 24 karlmenn hafa nú stigið fram og sakað Kevin Spacey um kynferðislega áreitni eða kynferðisofbeldi. Framleiðslu Netflix-seríunnar vinsælu House of Cards, þar sem Spacey fór með aðalhlutverkið, var hætt tímabundið í kjölfar ásakananna. Nú er leitað leiða til að halda framleiðslu áfram án Spacey.

Kevin Spacey fór með aðalhlutverkið í House of Cards.Vísir/Getty

Ekki fórnarlamb heldur tækifærissinni

Rapp segist að mestu hafa fengið jákvæð viðbrögð við frásögn sinni en í vikunni birti hann þó skjáskot af illskeyttum athugasemdum sem honum hafa borist í gegnum Instagram-reikning sinn. Með birtingunni vill Rapp varpa ljósi á áreitnina sem þolendur kynferðisofbeldis verða fyrir.



„Hey, helvítis asninn þinn! Takk fyrir að binda enda á framleiðslu uppáhalds þáttarins míns,“ ritar einn Instagram-notandi. Annar segir Rapp ekki hafa verið fórnarlamb í samskiptum sínum við Spacey.



„Þannig að þú varst 14 ára og í fullorðinspartýi? Svo þú varst hangandi inni á herbergi í sakleysi þínu að horfa á sjónvarpið þegar partýið var í gangi? Í alvörunni? Þú ert tækifærissinni. Þú ert ekki fórnarlamb.“



Spacey hefur ekki tjáð sig opinberlega um ásakanirnar, fyrir utan þá sem fyrst leit dagsins ljós. Í nóvember hóf hann meðferð við kynlífsfíkn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×