Innlent

Vísa ásökunum um bellibrögð á bug

Sveinn Arnarsson skrifar
Ekki liggur fyrir hvort einhver strandaglópa gærdagsins hafi nýtt sér þjónustu BaseParking.
Ekki liggur fyrir hvort einhver strandaglópa gærdagsins hafi nýtt sér þjónustu BaseParking. vísir/eyþór
Isavia vísar því á bug að fyrirtækið beiti bellibrögðum í samkeppni við bílastæðafyrirtækið BaseParking á Suðurnesjum en síðarnefnda fyrirtækið hefur kvartað til Samkeppniseftirlitsins og sakað Isavia um að nýta sér markaðsráðandi stöðu sína og aflsmuni til að leggja stein í götu fyrirtækisins.

Isavia hefur ekki fengið umrædda kvörtun í sínar hendur og getur því ekki tjáð sig um efni hennar. Fréttablaðið sagði frá því í gær að fyrirtækið teldi Isavia vera farið að veita sambærilega þjónustu og það hafi boðið upp á til að koma höggi á það og að Isavia hafi sektað fyrirtækið fyrir að nýta sér sleppistæði við flugvöllinn í mjög skamman tíma.

„Isavia hefur um árabil boðið upp á þá þjónustu að leggja bifreiðum fyrir farþega og ekki um neina nýbreytni að ræða. Þjónusta sem þessi hefur verið í boði með einhverjum hætti frá 2008 eða í tæp 10 ár,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, og segir ennfremur að allir fái sektir fyrir að nýta sér aðstöðu sem ekki er hugsuð sem bílastæði.

„BaseParking fékk sekt fyrir að leggja í sleppistæði við flugstöðina. Þau eru hugsuð til þess að hleypa farþegum út en ekki til þess að leggja bifreiðum. Það kemur skýrt fram á skiltum að óheimilt sé að leggja bifreiðum á þessum stað og að viðurlög séu sektir. Allir þeir sem nota þessi stæði í annað en að hleypa út farþegum eru sektaðir,“ segir Guðjón.




Tengdar fréttir

Frumkvöðlar saka ISAVIA um bellibrögð

Fyrirtækið BaseParking segir ISAVIA, í krafti aðstöðu sinnar, gera því lífið leitt með alls konar bellibrögðum. Hefur kvartað til Samkeppniseftirlitsins vegna framferðis ríkisfyrirtækisins sem býður upp á sömu þjónustu og BaseParking.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×