Erlent

Gagnrýni leiðir til afsagnar lögreglustjórans í Charlottesville

Kjartan Kjartansson skrifar
Heather Heyer var 32 ára þegar hvítur þjóðernissinni ók á hana í Charlottesville í VIrginíu í ágúst.
Heather Heyer var 32 ára þegar hvítur þjóðernissinni ók á hana í Charlottesville í VIrginíu í ágúst. Vísir/AFP
Lögreglustjórinn í bandarísku borginni Charlottesville sagði skyndileg af sér í dag. Skammt er síðan opinber skýrsla var gefin út um viðbrögð lögreglunnar við samkomu hvítra þjóðernissinna í borginni í sumar þar sem hún var harðlega gagnrýnd fyrir lélegan undirbúning, þjálfun og skipulag.

Kona á fertugsaldri lét lífið í óeirðum sem brutust út á milli hvítu þjóðernissinnanna og mótmælenda þeirra í Charlottesville í Virginíu í ágúst. Einn hvítu þjóðernissinnanna ók hana niður á bíl sínum þegar hann keyrði í gegnum hóp mótmælenda í göngugötu. Þrjátíu og fimm aðrir mótmælendur særðust í árásinni.

Fyrrverandi ríkissaksóknari sem skilaði skýrslu um viðbrögð lögreglunnar við samkomunni og óeirðunum komst að þeirri niðurstöðu að skortur á viðunandi undirbúningi hafi leitt til „skelfilegra afleiðinga“.

Sautján dagar eru síðan að skýrslan kom út. Alfred Thomas, lögreglustjórinn í Charlottesville, tilkynnti um afsögn sína í dag, að því er kemur fram í frétt Washington Post.

Í skýrslunni kom meðal annars fram að lögreglumenn hafi ekki gripið inn í átök sem brutust út á milli öfgamannanna og mótmælenda. Saksóknarinn sem fór yfir vinnubrögð lögreglunnar sagði að það hefðu verið mistök sem höfðu raunverulegar og varanlegar afleiðingar.  Hafði hann eftir nokkrum lögreglumönnum að lögreglustjórinn hefði sagt þeim að leyfa fólkinu að slást því það myndi auðvelda lögreglunni að lýsa samkomuna ólöglega.

Dauði konunnar hafi verið sorglegasta birtingarmynd þess hvernig lögreglan brást í að gæta öryggis borgaranna. Þannig hafi engir lögreglumenn verið á því svæði þar sem öfgamaðurinn ók á mótmælendurna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×