Enski boltinn

Mourinho hugsar eins og Björn Borg

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
José Mourinho
José Mourinho Vísir/Getty
José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, fann sér nýjan innblástur fyrir „hugsum um einn leik í einu“ klisjuna sem íþróttaþjálfarar eru svo hrifnir af.

Manchester United er átta stigum á eftir grönnum sínum í Manchester City í ensku úrvalsdeildinni, og miðað við hvernig City liðið er að spila þessa dagana þá virðast þessi átta stig óyfirstíganleg.

Mourinho segist þó ekki hafa neinar áhyggjur af því, og hann segi sínum mönnum bara að hugsa um næsta leik.

„Í gær horfði ég á áhugaverða kvikmynd. Björn Borg á móti John McEnroe. Þjálfari Borg sagði honum þetta aftur og aftur. Eitt stig í einu, hugsaðu bara um eitt stig. Ég segi leikmönnum mínum að hugsa bara um leikinn,“ sagði Mourinho á blaðamannafundi fyrir stórleik Arsenal og Untied sem fram fer seinni partinn á morgun.

Borg og McEnroe voru frægir andstæðingar í tennisheiminum þegar þeir voru upp á sitt besta og elduðu oft grátt silfur saman.

„Það skiptir ekki máli hvað gerist næst eða hvað hefur gerst áður. Það er bara þessi leikur. Arsenal. Við hugsum ekki um hversu mörgum stigum við erum á undan þeim, eða hversu mörgum stigum við erum á eftir toppliðinu.“

Leikur Arsenal og Manchester United verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD á morgun og hefst hún klukkan 17:20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×