Erlent

Köstuðu látlaust upp meðan á leiknum stóð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá leik Indlands og Sri Lanka í dag. Leikmenn settu margir upp grímur vegna loftmengunar.
Frá leik Indlands og Sri Lanka í dag. Leikmenn settu margir upp grímur vegna loftmengunar. Vísir/AFP

Gríðarleg loftmengun varð þess valdandi að leikmenn krikketliða Indlands og Sri Lanka þurftu ítrekað að stöðva leikinn til þess að kasta upp. Leikurinn fór fram í Delí, höfuðborg Indlands, í dag.

Samkvæmt leiklýsendum er þetta í fyrsta sinn sem kappleikur milli landa er stöðvaður vegna mengunar í lofti, að því er fram kemur í frétt breska dagblaðsins Guardian.

„Leikmenn fóru út af vellinum og ældu,“ sagði Nic Pothas, þjálfari krikketliðs Sri Lanka, við fréttamenn eftir leikinn. „Það voru súrefnishylki í búningsklefunum. Það er ekki eðlilegt að leikmenn þurfi að þjást á þennan hátt á meðan þeir eru að spila.“

Þá brugðu margir leikmenn á það ráð að setja upp grímur og spila leikinn með þær fyrir vitum sér.

Loftmengun hefur rokið upp úr öllu valdi í Delí undanfarnar vikur. Læknar lýstu yfir neyðarástandi í borginni í síðasta mánuði þegar mengunarstig mældist langt yfir hættumörkum. Þá var loftmengunin talin á við það að reykja 50 sígarettur á dag.

Delí er ein mengaðasta borg í heimi af völdum vegryks, opinna elda, útblásturs bifreiða og verksmiðja og bruna á afgangsuppskeru í nærliggjandi sveitum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.