Enski boltinn

Clattenburg leyfði Tottenham mönnum að tortíma sjálfum sér í frægum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Terry vildi frá rauð spjöld á loft á leikmenn Tottenham en það var ekki á dagskrá hjá Mark Clattenburg,
John Terry vildi frá rauð spjöld á loft á leikmenn Tottenham en það var ekki á dagskrá hjá Mark Clattenburg, Vísir/Getty
Mark Clattenburg, fyrrum dómari í ensku úrvalsdeildinni, hefur tjáð sig um eftirminnilegan leik á milli Tottenham og Chelsea í maí 2016 þar sem Tottenham-liðið missti Englandsmeistaratitilinn endanlega til Leicester City.

Tottenham gerði þá 2-2 jafntefli við Chelsea en hefði þurft að vinna leikinn til að eiga ennþá möguleika á titlinum. Leicester fagnaði titlinum þetta kvöld án þess að spila.

Mark Clattenburg ræddi leikinn í viðtali í Men in Blazers vefþættinum þar sem Íslandsvinirnir voru með dómarann í viðtali.  BBC segir frá.

Þetta var ótrúlegt kvöld þar sem níu leikmenn Tottenham fengu gult spjald og bæði félög voru sektuð fyrir framkomu sinna leikmanna.

Clattenburg sagði að sitt leikplan þetta kvöld hafi verið að forðast það eins og heitann eldinn að honum yrði kennt um það að Tottenham missti af titlinum.

„Ég leyfði Tottenham mönnum að tortíma sjálfum sér svo allir fjölmiðlar heimsins myndi slá því upp að Tottenham hafi tapað titlinum,“ sagði Mark Clattenburg.

„Ef ég hefði rekið þrjá leikmenn Tottenham af velli þá hefðu fyrirsagnirnar verið: Tottenham tapaði titlinum útaf Clattenburg. Þetta var hrein leiksýning þegar leikmenn Tottenham tortímdu sjálfum sér,“ sagði Mark Clattenburg.

„Einhverjir dómarar hefðu eflaust farið eftir bókinni og Tottenham hefði í framhaldinu endað með sjö eða átta menn inn á vellinum. Þeir voru að leita sér að afsökun en ég ætlaði ekki að gefa þeim hana. Mitt plan var að leyfa þeim sjálfum að tapa titlinum,“ sagði Clattenburg.

Mark Clattenburg náði magnaðri þrennu þetta sumar því hann dæmdi úrslitaleik ensku bikarkeppninnar, úrslitaleik Meistaradeildarinnar og úrslitaleik Evrópukkeppninnar í Frakklandi.

Hann hætti að dæma í ensku úrvalsdeildinni í febrúar og gerðist í staðinn yfirmaður dómara í Sádí Arabíu.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×