Erlent

90 prósent kjósenda í Katalóníu kusu með sjálfstæði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
90 prósent kjósenda kusu "já“, með sjálfstæði Katalóníu frá Spáni.
90 prósent kjósenda kusu "já“, með sjálfstæði Katalóníu frá Spáni.
Yfirvöld í Katalóníu segja niðurstöður kosninganna í dag sýna fram á yfirgnæfandi stuðning Katalóna við sjálfstæði héraðsins. 90 prósent kjósenda kusu með sjálfstæði Katalóníu frá Spáni. The Guardian greinir frá.

Jordi Turull, talsmaður ríkisstjórnar Katalóníu, tjáði fjölmiðlum ytra snemma að morgni mánudags 2. október að 90 prósent af þeim 2,26 milljónum Katalóna, sem greiddu atkvæði í kosningunum á sunnudag, hefðu kosið „já“.

Turull sagði enn fremur 8 prósent kjósenda hafa greitt atkvæði gegn sjálfstæðri Katalóníu og 2 prósent kjörseðla hefðu verið auðir og ógildir. Enn átti eftir að telja um fimmtán þúsund atkvæði þegar fjölmiðlar náðu tali af Turull.

Þá sagði Turull að þeir kjörseðlar, sem spænska lögreglan hefði gert upptæka í átökum við kjósendur í dag, væru ekki með í talningunni. 5,3 milljónir eru á kjörskrá í Katalóníu og kjörsókn því um 42,3 prósent.



Tala særðra komin upp í 844

Að minnsta kosti 844 eru særðir eftir átökin í dag, að því er fram kemur í tilkynningu frá heilbrigðismálayfirvöldum í Katalóníu, og þá eru 33 lögreglumenn sagðir slasaðir að auki.

Spænska lögreglan lokaði rúmlega 300 kjörstöðum í dag og reyndi víða að fjarlægja kjörgögn. Hún lokaði til að mynda kjörstað í bænum Girona í morgun þar sem Puigdemont sjálfur átti að kjósa. Þá réðst hún inn á fjölda annara kjörstaða og hafði á brott með sér kjörkassa.

Dagur vonar og þjáningar

Spænska ríkisstjórnin kennir leiðtoga Katalóníu, Carles Puigdemont, um atburði dagsins og hefur forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, lýst því yfir að kosningarnar um sjálfstæði Katalóníu séu ólöglegar. Puigdemont ákvað að kosningarnar skyldu haldnar þrátt fyrir afgerandi andstöðu spænsku ríkisstjórnarinnar.

Íbúar höfuðborgar Katalóníu, Barselóna, söfnuðust saman á Katalóníutorgi í borginni í kvöld og fögnuðu eftir að úrslit kosninganna voru ljós.Vísir/AFP
Puigdemont sagði héraðið hafa unnið sér inn rétt til að lýsa yfir sjálfstæði frá Spáni í kjölfar úrslita kosninganna í dag. Í ávarpi sínu, sem sjónvarpað var um Katalóníu, sagði hann niðurstöður kosninganna myndu verða teknar fyrir á katalónska þinginu eins fljótt og auðið er.

„Með þessum degi vonar og þjáningar hafa íbúar Katalóníu öðlast rétt til sjálfstæðs ríkis í formi lýðveldis,“ sagði Puigdemont.

„Ríkisstjórn mín mun á næstu dögum senda niðurstöður kosninganna í dag til katalónska þingsins, þar sem vald fólksins er, svo þeim geti verið beitt í samræmi við löggjöf kosninganna.“


Tengdar fréttir

Átök í Katalóníu

Minnst ellefu lögregluþjónar og 337 mótmælendur eru særðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×