Fótbolti

Klökkur Jói Berg: Þetta er fyrir fjölskylduna og þjóðina

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson var klökkur í leikslok í kvöld, en hann gulltryggði sigur Íslands með því að skora annað mark leiksins.

„Þetta er ótrúlegt. Ég eiginlega bara veit ekki hvað ég á að segja. Maður verður bara klökkur eiginlega að tala um þetta, að við séum komnir á HM,“ sagði miðjumaðurinn í viðtali við Tómas Þór Þórðarson.

„Þetta er búið að vera draumur allra Íslendinga sem hafa einhvern áhuga á fótbolta og bara allra landsmanna alltaf, þú vilt komast á HM.“

„Stærsta stund ever í fótbolta og við erum komnir þangað. Ég get ekki beðið eftir næsta sumri, að fara til Rússlands og gera enn betur.“

„Þetta er ótrúlegt, að vinna þennan riðil er bara magnað.“

Fyrsta markið var lengi að koma í kvöld og vissu strákarnir að þeir þyrftu að sína þolinmæði.

„Við vissum að það var erfitt að brjóta þá niður. Þeir eru góðir, þeir eru þéttir til baka. Úkraína tók 60 mínútur í að brjóta þá niður.“

„Þetta fyrsta mark frá Gylfa gerir þetta allt auðveldara, og svo að klára þetta með öðru markinu, þá er þetta bara búið og þeir fengu ekki mikið af færum. Eins skemmtilegt og þetta verður.“

Jóhann Berg klökknaði þegar Tómas spurði hann út í hvernig það væri að hafa alla þjóðina og fjölskylduna uppi í stúku

„Dóttir mín kom í nótt frá Spáni og ég fékk aðeins að knúsa hana áðan. Þetta er fyrir þau og alla þjóðina,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson.


Tengdar fréttir

Setja upp svið á Ingólfstorgi

Búið er að setja upp svið á Ingólfstorgi í miðbæ Reykjavíkur en vegfarendur tóku eftir því strax í gær að byrjað var að setja upp sviðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×