Fótbolti

Gylfi er nú einn í þriðja sætinu á markalista landsliðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skorar hér markið sitt.
Gylfi Þór Sigurðsson skorar hér markið sitt. Vísir/Eyþór
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sitt átjánda mark fyrir íslenska landsliðið í kvöld þegar hann kom Íslandi í 1-0 á móti Kósóvó í Laugardalnum.

Gylfi er aðeins þriðji maðurinn sem nær að skora 18 mörk fyrir íslenska A-landsliðið en hinir eru Eiður Smári Guðjohnsen og Kolbeinn Sigþórsson.

Gylfi var jafn Ríkharði Jónssyni í þriðja til fjórða sæti fyrir leikinn en Ríkharður skoraði 17 mörk fyrir íslenska landsliðið frá og var markahæsti leikmaður landsliðsins í næstum því fjóra áratugi.

Eiður Smári Guðjohnsen sló met Ríkharðs og á metið ennþá en hann skoraði 26 mörk í 88 landsleikjum.

Kolbeinn Sigþórsson var kominn með 22 mörk í 44 landsleikjum þegar hann meiddist eftir EM í Frakklandi 2016.

Gylfi hefur skorað mörkin sín 18 í 54 landsleikjum en hann skoraði tvö mörk í mikilvægum 2-0 sigri á Úkraínu í síðasta leik landsliðsins á Laugardalsvellinum á undan þessum í kvöld.

Af átján mörkum Gylfa fyrir íslenska liðið hafa sextán þeirra komið í keppnisleikjum sem sýnir að hann er að skora mörkin fyrir landsliðið þegar það skiptir máli.

Markahæstu leikmenn í sögu íslenska karlalandsliðsins í fótbolta:

1. Eiður Smári Guðjohnsen    26     

2. Kolbeinn Sigþórsson    22     

3. Gylfi Sigurðsson    18     

4. Ríkharður Jónsson    17     

5. Ríkharður Daðason    14

5. Arnór Guðjohnsen 14  

7. Þórður Guðjónsson 13

8. Tryggvi Guðmundsson 12

9. Heiðar Helguson 11

9. Pétur Pétursson 11

9. Alfreð Finnbogason 11

9. Matthías Hallgrímsson 11


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×