Fótbolti

Skoraði ekki í 34 landsleikjum í röð en svo tvisvar á fjórum dögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson í leiknum í kvöld.
Jóhann Berg Guðmundsson í leiknum í kvöld. Vísir/Eyþór
Jóhann Berg Guðmundsson kom íslenska landsliðinu í 2-0 í leiknum mikilvæga á móti Kósóvó á Laugardalsvellinum í kvöld en íslenska landsliðið tryggir sér sæti á HM með sigri.

Jóhann Berg var þarna að skora í sínum öðrum landsleik í röð en hann skoraði fyrsta mark íslenska landsliðsins í 3-0 sigri úti í Tyrklandi á föstudagskvöldið.

Jóhann Berg hefur nú skorað 6 mörk í 62 landsleikjum en hann þurfti að bíða lengi eftir marki númer fimm.

Þegar Jóhann Berg skoraði í leiknum á móti Tyrklandi þá var hann ekki búinn að skora í 34 landsleikjum í röð eða síðan að hann skoraði þrennuna eftirminnilegu á móti Sviss úti í Bern.

Jóhann Berg var kominn með 4 landsliðsmörk í 26 landsleikjum eftir þann leik en síðan liðu fjögur ár og einn mánuður, samtals 1491 dagur, þar til hann var aftur á skotskónum í landsliðsbúningnum.

Það er ekki hægt að kvarta mikið yfir tímasetningunni á mörkum Jóhanns því þessi tvö mörk hans voru gríðarlega mikilvæg í baráttunni um HM-sætið.

Hann kom okkur á bragðið á móti Tyrkjum og kom íslenska liðinu síðan í frábæra stöðu á móti Kósóvó.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.