Íslenski boltinn

Ástríðan ekki til staðar hjá Gunnari Jarli

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar

Besti dómari Pepsi deildarinnar síðustu tvö ár, Gunnar Jarl Jónsson, hefur ákveðið að hætta dómarastörfum, að minnsta kosti á næsta tímabili.

„Ástríðan sem var til staðar áður hefur ekki verið til staðar í sumar,“ sagði Gunnar Jarl í viðtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Auðvitað er maður kannski á toppi ferilsins, eins og einhverjir mundu segja, að dæma úti og góður standard. En mér fannst bara ekki vera hægt að gera þetta 70-80%. Ég vil gera mína hluti 100%.“

„Félögin eru ekki að gera nóg,“ sagði Gunnar aðspurður út í stöðu dómaramála í landinu. „Félögin kvarta mikið yfir dómaramálum, en ég get ekki séð að þau séu að leggja mikið til.“

„Það eru mjög fá félög sem sinna dómaramálum af einhverjum metnaði og einhverri alúð.“

„KSÍ mannar alla leiki á Íslandi með dómurum, það er náttúrulega ótrúleg þjónusta, án þess að félög greiði einu sinni þáttökugjöld.“

Gunnar hefur verið á dómaraskrá Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, síðan 2011.

„Að dæma þessa stóru leiki, og fara á lokakeppnir og ýmislegt, hefur auðvitað verið alveg gríðarleg upplifun og mikil ánægja.“

„Aðalið er að dæma hérna heima, hitt er gulrót. Mér fannst það ekki vera nóg,“ sagði Gunnar Jarl Jónsson.

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.