Enski boltinn

Stærstu kaupin í ensku úrvalsdeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexandre Lacazette var aðeins 94 sekúndur að skora sitt fyrsta deildarmark fyrir Arsenal.
Alexandre Lacazette var aðeins 94 sekúndur að skora sitt fyrsta deildarmark fyrir Arsenal. vísir/getty
Nýjasta Skyttan í vopnabúri Arsenal



Alexandre Lacazette

26 ára

Framherji

Landsleikir fyrir Frakkland: 11

Mark fyrir Frakkland: 1

Keyptur á 47,7 milljónir punda frá Lyon



Fyrir nokkrum mánuðum benti flest til þess að Alexandre Lacaz­ette væri á leið til Atlético Madrid. En Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, nýtti tækifærið þegar Atlético var dæmt í félagaskiptabann og fékk Lacazette til Emirates fyrir metverð.

Þegar tölfræði Lacazettes með Lyon er skoðuð er ekki skrítið að Arsenal hafi verið tilbúið að borga tæplega 50 milljónir fyrir franska framherjann. Lacazette skoraði ekki mikið fyrstu árin sín hjá Lyon en síðustu fjögur tímabil sín hjá liðinu skoraði hann 91 mark í 133 leikjum í frönsku úrvalsdeildinni. Á síðasta tímabili skoraði Lacaz­ette mark á 86 mínútna fresti í frönsku deildinni.

Það tók Lacazette aðeins 94 sekúndur að skora sitt fyrsta deildarmark fyrir Arsenal. Hann skallaði þá fyrirgjöf Mohameds Elneny framhjá Kasper Schmeichel, markverði Leicester City, í upphafsleik tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni sem Arsenal vann 4-3. Auk þess að skora var Lacazette mjög ógnandi og vinnusamur í leiknum gegn Leic­ester. Hann fann sig ekki í 1-0 tapinu fyrir Stoke City í 2. umferðinni og byrjaði svo á bekknum þegar Arsenal steinlá fyrir Liverpool, 4-0, um síðustu helgi.

Lacazette hefur hæfileikana til að blómstra í ensku úrvalsdeildinni en spurningin er hvort hann nær að fullnýta þá í liði Arsenal sem er ekki á góðum stað.

Lukaku hefur farið vel af stað í búningi Manchester United.vísir/getty
Belginn strax byrjaður að borga til baka

Romelu Lukaku

24 ára

Framherji

Landsleikir fyrir Belgíu: 59

Mörk fyrir Belgíu: 23

Keyptur á 76,2 milljónir punda frá Everton

Romelu Lukaku þurfti ekki neinn aðlögunartíma hjá Manchester United eftir félagaskiptin frá Everton. Belginn stóri og stæðilegi skoraði í sínum fyrsta keppnisleik fyrir United; gegn Real Madrid í Ofurbikar Evrópu. Lukaku fylgdi því eftir með því að skora tvö mörk í 4-0 sigrinum á West Ham í 1. umferð í ensku úrvalsdeildinni.Hann varð þar með fjórði leikmaður United sem skorar tvö mörk í fyrsta úrvalsdeildarleik sínum fyrir United. Lukaku skoraði svo eitt marka United í 0-4 sigrinum á Swansea City.

Lukaku var keyptur til United til að skora mörk og hann er strax byrjaður að gera það. Honum hefur verið legið á hálsi fyrir að skora aðallega gegn minni liðunum í ensku úrvalsdeildinni. En það var nákvæmlega það sem vantaði hjá United á síðasta tímabili. Liðið tapaði allt of mörgum stigum gegn liðum í neðri helmingnum og mörkin voru of fá. United skoraði aðeins 54 mörk á síðasta tímabili en er strax komið með 10 mörk í aðeins þremur leikjum á þessu tímabili. Það er mikil framför.

Lukaku kann á ensku úrvalsdeildina. Hann hefur skorað 88 mörk í 189 leikjum og varnarmenn deildarinnar ráða illa við hraðann, styrkinn og kraftinn sem hann býr yfir.

Svo er Lukaku aðeins 24 ára gamall. Það er því ekki skrítið að United hafi borgað veglega upphæð fyrir framherjann öfluga.

Mendy er mikill orkubolti.vísir/getty
Dýrasti varnarmaður fótboltasögunnar

Benjamin Mendy

23 ára

Vinstri bakvörður

Landsleikir fyrir Frakkland: 4

Ekkert mark fyrir Frakkland

Keyptur á 51,75 milljónir punda frá Monaco

Pep Guardiola var greinilega ekki nógu ánægður með frammistöðu bakvarða Manchester City á síðasta tímabili því hann lét alla fjóra bakverði liðsins fara í sumar. Bacary Sagna, Pablo Zabaleta, Gaël Clichy og Aleksandar Kolarov eru allir komnir yfir þrítugt og Guardiola vildi fá ferskari lappir til að hlaupa fram og aftur kantana hjá City.

Spánverjinn keypti bakverði fyrir um 125 milljónir punda í sumar. Dýrastur þeirra var Benj­amin Mendy en hann kostaði 51,8 milljónir punda. Hann er jafnframt dýrasti varnarmaður sögunnar, hvorki meira né minna.

Mendy, sem er 23 ára gamall, sló í gegn með Monaco á síðasta tímabili. Þetta stórskemmtilega lið rauf einokun Paris Saint-Germain á franska meistaratitlinum og komst auk þess alla leið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu.

Mendy er stór og sterkur og býr yfir endalausri orku. Hann er einnig með fínar fyrirgjafir og lagði upp fimm mörk í frönsku úrvalsdeildinni í fyrra og fjögur í Meistaradeildinni. Mendy hefur því nánast allt sem góður bakvörður í nútíma fótbolta þarf að hafa. Og þessi heildarpakki heillaði Guardiola.

Mendy vann sér einnig sæti í franska landsliðinu fyrr á þessu ári og hefur leikið fjóra A-landsleiki. Þeim á eflaust eftir að fjölga á næstu árum.
Álvaro Morata hefur byrjað af krafti í búningi Englandsmeistara Chelsea.vísir/getty
Þarf að fylla í skarð hins geðstirða Costa



Álvaro Morata

24 ára

Framherji

Landsleikir fyrir Spán: 21

Mörk fyrir Spán: 9

Keyptur á 58,5 milljónir punda frá Real Madrid

Það er ekkert smá verkefni sem bíður Álvaros Morata hjá Chelsea; að fylla skarð félaga síns í spænska landsliðinu, Diegos Costa.

Chelsea hefur tvisvar sinnum orðið Englandsmeistari á síðustu þremur árum. Hinn geðstirði Costa átti risastóran þátt í báðum titlunum. Hann skoraði 20 mörk bæði tímabilin sem Chelsea varð meistari og hefur alls skorað 52 mörk í 89 leikjum í ensku úrvalsdeildinni sem er frábær árangur. Costa gerir líka meira en að skora; hann er duglegur, bindur varnir andstæðinganna í fjötra og býr til pláss fyrir aðra leikmenn.

Morata er allt öðruvísi framherji en Costa. Það er ekki sami djöfulgangur í honum og hann hefur ekki sömu áhrif á leikinn. En hann getur skorað. Á síðasta tímabili skoraði Morata t.a.m. 15 mörk fyrir Real Madrid í spænsku úrvalsdeildinni þrátt fyrir að vera aðeins 14 sinnum í byrjunarliðinu.

Þrátt fyrir farsælan feril hefur hinn 24 ára Morata aldrei verið framherji númer eitt hjá sínum félagsliðum, fyrr en núna. Og miðað við fyrstu leikina með Chelsea­ virðist Morata finna sig vel í því hlutverki. Þegar þrjár umferðir eru búnar af ensku úrvalsdeildinni hefur Morata skorað tvö mörk og lagt upp önnur tvö.

Chelsea vann Englandsmeistaratitilinn á sannfærandi hátt í fyrra. Og ef Morata heldur áfram að spila eins og hann hefur gert í upphafi tímabils á Lundúnaliðið góða möguleika á að endurtaka leikinn.
Jordan Pickford er af mörgum talin vera framtíðarmarkvörður enska landsliðsins.vísir/getty
Framtíðarmaður milli stanganna hjá Everton

Jordan Pickford

23 ára

Markvörður

Enginn landsleikur fyrir England

Keyptur á 25,7 milljónir punda frá Sunderland

Þrátt fyrir að hafa aðeins spilað eitt tímabil í ensku úrvalsdeildinni með fallliði Sunderland ákvað Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Everton, að gera Jordan Pickford að dýrasta markverði Bretlandseyja í sumar.

Pickford þurfti að bíða lengi eftir tækifærinu hjá Sunderland. Hann var lánaður til sex liða í neðri deildunum á árunum 2012-16 og byrjaði síðasta tímabil sem varamarkvörður fyrir Vito Mannone. Ítalinn meiddist hins vegar illa í upphafi tímabils, Pickford fékk tækifærið og greip það með báðum höndum.

Honum tókst ekki að koma í veg fyrir að Sunderland félli en frammistaða hans vakti athygli stærri félaga og hann var tilnefndur sem besti ungi leikmaður síðasta tímabils. Þá var hann valinn í enska A-landsliðið. Pickford, sem á fjölda leikja fyrir yngri landslið Englands, á hins vegar enn eftir að leika sinn fyrsta A-landsleik.

Bláa liðið frá Liverpool var í vandræðum með markvörsluna á síðasta tímabili. Maarten Stekelen­burg og Joel Robles skiptu markvarðarstöðunni á milli sín en hvorugur þeirra var nógu sannfærandi. Það var því ljóst að Koeman þyrfti að finna nýjan mann á milli stanganna.

Pickford er mjög sjálfsöruggur og hugrakkur að koma út í teiginn og hirða fyrirgjafir. Hann er líka með frábærar spyrnur og fljótur að koma boltanum í leik.

Pickford býr ekki yfir mikilli reynslu og svo þarf hann að venjast nýjum veruleika hjá Everton þar sem hann verður ekki í hlutverki skotskífu eins og hjá Sunderland. En hann hefur hæfileikana og sjálfstraustið til að komast í fremstu röð.
Salah var frábær í stórsigrinum á Arsenal.vísir/getty
Hentar fullkomlega fyrir leikstíl Liverpool

Mohamed Salah

25 ára

Hægri kantmaður

Landsleikir fyrir Egyptaland: 53

Mörk fyrir Egyptaland: 29

Keyptur á 37,8 milljónir punda frá Roma

Þetta er í annað sinn sem lið í ensku úrvalsdeildinni kaupir Mohamed Salah. Hann vonast til að dvölin hjá Liverpool verði ánægjulegri en tíminn sem hann átti hjá Chelsea Salah fékk fá tækifæri hjá José Mourinho, knattspyrnustjóra Chelsea á þessum tíma, og lék aðeins 19 leiki og skoraði tvö mörk fyrir Lundúnaliðið.

Egyptinn var lánaður til Fior­entina seinni hluta tímabilsins 2014-15 og fór svo til Roma eftir það. Þar blómstraði Salah. Hann var góður tímabilið 2015-16 og enn betri tímabilið þar á eftir þegar hann skoraði 15 mörk og gaf 11 stoðsendingar í 31 leik í ítölsku úrvalsdeildinni.

Salah er eldfljótur, leikinn og afskaplega hættulegur í skyndisóknum. Það eru eiginleikar sem Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kann að meta.

Salah hefur farið mjög vel af stað með Liverpool. Hann skoraði í 3-3 jafnteflinu við Watford og í 4-2 sigrinum á Hoffenheim í umspili um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Egyptinn var svo óstöðvandi þegar Liverpool rúllaði yfir Arsenal, 4-0, um síðustu helgi. Salah skoraði og lagði upp mark og var síógnandi á hægri kantinum. Stuðningsmenn Liverpool vona að frammistaðan í þeim leik sé fyrirboði um það sem koma skal í vetur.

Þessi grein birtist fyrst í sérblaði um enska boltann 2. september síðastliðinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×