Íslenski boltinn

Kristján Guðmunds: Ekkert mál að verjast fyrirgjöfum með fimm varnarmenn inni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kristján Guðmundsson var sáttur með sína menn í dag.
Kristján Guðmundsson var sáttur með sína menn í dag. VÍSIR/eyþór
„Þetta var vel spilað hjá strákunum. Við vorum einbeittir á að framkvæma það sem við ætluðum að gera, spiluðum boltanum í þau svæði sem við vildum í uppspilinu. Náðum að nýta leikmennina mjög vel og þeirra eiginleika, og varnarleikurinn var mjög góður líka,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, eftir sigur sinna manna á KR í Pepsi deildinni í dag.

ÍBV vann gríðarlega mikilvægan 3-0 sigur, sem kom þeim upp úr fallsæti á markatölu.

„Það eru fjórir leikir eftir. Við skoðum að sjálfsögðu töfluna þegar þetta er búið, en þetta hjálpar verulega upp á sálartitrið, það er engin spurning með það.“

„Við erum meðvitaðir um það að við þurfum að vinna fleiri leiki en bara þennan,“ bætir Kristján við.

Eyjamenn spiluðu vel í dag, en KR-ingar áttu einnig frekar slæman dag. Aðspurður hvað hafi staðið upp úr hjá sínu liðið sagði Kristján: „Fyrst og fremst, samheldni og einbeiting. Við duttum aldrei í það að hugsa um einhverja hluti sem við réðum ekki við, eitthvað sem við höfðum ekki áhrif á. Varnarleikurinn mjög þéttur og sóknarloturnar fínar.“

„Mjög gott að skora eftir fast leikatriði, það var einn af þeim punktum sem við fórum með inn í leikinn.“

Fyrri leikur liðanna, sem fram fór í Eyjum 15. júní síðast liðinn, endaði líka með sigri ÍBV. Hefur Kristján Guðmundsson fundið uppskriftina af því að sigra Vesturbæinga?

„Í fyrri leiknum þá settum við höfuðáherslu á að skora úr föstum leikatriðum og það gerðum við að mig minnir tvisvar þar. Náðum að loka á sóknarleik þeirra. Við spiluðum aðeins öðruvísi núna varnarleikinn þá þó við höfum verið nánast í sömu uppstillingu. Reyndum að vinna þá inn í önnur svæði heldur en í fyrri leiknum og það tókst mjög vel og við unnum boltann á þeim stöðum sem við vildum vinna hann.“

„Að verjast fyrirgjöfum með fimm menn inni, það er ekkert vandamál fyrir okkur,“ sagði Kristján að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×