Erlent

Óska eftir neyðarfundi í öryggisráði SÞ vegna eldflaugaskots Norður-Kóreu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, og Donald Trump, Bandaríkjaforseti, á leiðtogafundi G20-ríkjanna í Hamborg í Þýskalandi í júlí síðastliðnum.
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, og Donald Trump, Bandaríkjaforseti, á leiðtogafundi G20-ríkjanna í Hamborg í Þýskalandi í júlí síðastliðnum. vísir/getty
Þeir Donald Trump, Bandaríkjaforseti, og Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, ætla að óska eftir neyðarfundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna vegna eldflaugar sem Norður-Kóreumenn skutu yfir Japan í gær.

Þá ætla Trump og Abe að þrýsta enn meira á Norður-Kóreu að láta af eldflaugatilraunum sínum en japanski forsætisráðherrann segir að eldflaugaskotið nú sé „fordæmalaus og alvarleg ógn“ við öryggi Japans.

Embættismenn í Suður-Kóreu segja að eldflauginni hafi verið skotið lengra en nokkurri annarri sem Norður-Kóreumenn hafa gert tilraunir með undanfarið. Aðeins eru nokkrar vikur síðan Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hótaði að skjóta á eyjuna Guam í Kyrrahafi en eyjan er bandarískt yfirráðasvæði.

Grefur undan friði og öryggi

Abe greindi blaðamönnum í Tókýó frá símtali sem hann átti við Trump eftir eldflaugaskotið í gær. Sagði hann að Bandaríkjaforseti hefði tjáð honum að Bandaríkin stæðu heilshugar með Japönum.

„Það er svívirðilegt að skjóta eldflaug yfir landið okkar og þetta er fordæmalaus og alvarleg ógn sem auk þess grefur undan friði og öryggi hér í þessum heimshluta,“ sagði Abe við blaðamenn í gær og bætti við að ríkisstjórnin hefði komið mótmælum sínum vegna eldflaugaskotsins á framfæri við yfirvöld í Pyongyang.

Eldflaugin, sem talið er að sé af gerðinni Hwasong-12, flaug yfir Hokkaido og lenti í Kyrrahafinu um 1180 kílómetra austur af norðureyju Japans.

Norður-Kórea hefur framkvæmt fjölmargar eldflaugatilraunir á undanförnum vikum og mánuðum í trássi við ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Nú síðast var þremur skammdrægum eldflaugum skotið á loft á laugardaginn. Spenna á svæðinu er mjög mikil og hafa leiðtogar Norður-Kóreu og Bandaríkjanna skipst á harðorðum yfirlýsingum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×