Erlent

Sundurlimaða líkið af Kim Wall

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Líkið sem fannst í sjónum við Amager var af blaðakonunni Kim Wall.
Líkið sem fannst í sjónum við Amager var af blaðakonunni Kim Wall. Vísir/EPA

Kvenmannslíkið, sem Kaupmannahafnarlögreglan fann við strendur Amager á mánudag, er af sænsku blaðakonunni Kim Wall.

Þetta staðfestir lögreglan í samtali DR nú í morgun sem og á Twitter-síðu sinni þar sem hún segir að niðurstöður lífsýnagreiningar hafi leitt þetta í ljós. 

„DNA-samsvörun milli líksins og Kim Wall. Ekkert frekar,“ skrifar hún í færslu sinni.

Fram hefur komið að líkið sem fannst hafi verið sundurlimað og var það án höfuðs, handleggja og fóta. Á blaðamannafundi í gær greindi talsmaður lögreglunnar frá því að limirnir hefðu verið fjarlægðir af ásettu ráði. Mjög ólíklegt þætti að slíkir áverkar hlytust í slysförum.

Líkið fannst á því svæði sem leitað hefur verið á að sænsku blaðakonunni Kim Wall sem hvarf í síðustu viku. 

Segir slys hafa dregið Wall til dauða

Peter Madsen, sem er í haldi lögreglu grunaður um aðild að hvarfi Wall, hefur viðurkennt að hafa varpað líki sænsku blaðakonunnar fyrir borð í kafbáti sínum. Hann heldur því fram að slys hafi orðið um borð í bátnum sem hafi leitt til dauða hennar.

Síðast sást til hinnar þrítugu Wall fimmtudaginn 10. ágúst en hún var með Madsen í kafbátnum í þeim tilgangi að skrifa um kafbátinn og siglinguna. Madsen var handtekinn á laugardaginn grunaður um manndráp af gáleysi eftir að kafbáturinn UC3 Nau­tilus sökk á föstudaginn. Grunur liggur á að Madsen hafi sökkt honum af ásettu ráði.

Hann var í kjölfarið úrskurðaður í 24 daga gæsluvarðhald, en neitaði til að byrja með að hafa orðið Wall að bana.

Lögmaður Madsens, Betina Hald Engmark, sagði í samtali við Jyllands-Posten á dögunum að þau litu ekki svo á að fundur líksins varpaði ljósi á það sem gerðist í kafbátnum. „Við getum ekki séð hvernig þetta hefur nokkuð með okkar mál að gera,“ sagði Engmark. 






Tengdar fréttir

Brotlending hins danska Geimflauga-Madsen

Danski uppfinningamaðurinn Peter Madsen er mjög þekktur maður í Danmörku. Sú staðreynd að hann sitji nú í gæsluvarðhaldi vegna hvarfs sænsku blaðakonunnar Kim Wall hefur vakið gríðarlega athygli í heimalandi hans og raunar um heim allan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×