Enski boltinn

Koeman vongóður um að fá Gylfa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Swansea.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Swansea. Vísir/Getty
Paul Clement, stjóri Swansea, og Ronald Koeman, kollegi hans hjá Everton, tjáðu sig báðir um mál Gylfa Þórs Sigurðssonar sem hefur verið sterklega orðaður við Everton síðustu daga og vikur.

Hingað til hefur Swansea hafnað öllum tilboðum í Gylfa Þór sem hefur æft með Swansea í vikunni.

Everton er nú að búa sig undir leik gegn Ruzomberok í forkeppni Evrópudeildar UEFA og var Koeman spurður um Gylfa Þór og hvort hann teldi líkur á því að það fengist niðurstaða í hans mál á næstu dögum.

„Ég vona það,“ sagði hann en vísaði annars til stjórnar félagsins þegar hann var spurður um hvernig viðræður gengu við Swansea.

„Við höfum auðvitað áhuga á þessum leikmanni og það ætti að vera öllum ljóst. Vonandi tekst okkur að semja við hann en mikilvægara er þó að við náum góðum úrslitum í leiknum á morgun,“ sagði Koeman.

Gylfi Þór tók þátt í opinni æfingu á heimavelli Swansea í dag. Eftir æfinguna ræddi Clement við fjölmiðla og staðfesti að Gylfi myndi ekki spila með Swansea í æfingaleik gegn Sampdoria um helgina.

„Viðræður eru enn í gangi og vonandi verður eitthvað að frétta á næstu dögum. Niðurstaðan þarf að henta öllum aðilum,“ sagði Clement.


Tengdar fréttir

Britton telur að Gylfi fari til Everton

Leon Britton, samherji Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Swansea, segir að baráttan um íslenska landsliðsmanninn sé líklega töpuð.

Sjáið Gylfa á æfingu hjá Swansea | Myndband

Gylfi Þór Sigurðsson er þessa stundina á æfingu hjá Swansea City og velska félagið býður stuðningsmönnum sínum og öðrum áhugasömum upp á það að fylgjast með æfingunni í beinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×