Enski boltinn

Britton telur að Gylfi fari til Everton

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi og Britton glaðbeittir á æfingu.
Gylfi og Britton glaðbeittir á æfingu. Vísir/Getty
Leon Britton, samherji Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Swansea, telur óumflýjanlegt að íslenski landsliðsmaðurinn verði seldur til Everton. Þetta sagði hann í viðtali við BBC í dag.

Hingað til hefur Swansea hafnað öllum tilboðum í Gylfa Þór og munu forráðamenn liðsins ekki sætta sig við neitt annað en 50 milljónir punda.

„Miðað við þau mörk sem hann skorar og stoðsendingar sem hann gefur teldi maður eðlilegt að hann væri að spila með liði í efri hluta ensku úrvalsdeildarinnar,“ sagði Britton.

„Hann er okkur afar mikilvægur í sóknarleiknum en því miður er staða Swansea þannig að það er erfitt að halda slíkum mönnum þegar stærri lið koma til sögunnar.“

„Ég veit ekki hvort að þetta mál muni klárast. Ég held að Everton hafi boðið 40-45 milljónir punda þannig að ég tel að það verði einhver hreyfing á þessu og að Gylfi muni fara.“

Britton hefur þó farið fram á að Swansea finni eftirmann Gylfa verði hann seldur til Everton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×