Enski boltinn

Matic orðinn leikmaður Manchester United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nemanja Matic varð tvisvar sinnum Englandsmeistari með Chelsea.
Nemanja Matic varð tvisvar sinnum Englandsmeistari með Chelsea. vísir/getty
Manchester United hefur gengið frá kaupunum á serbneska miðjumanninum Nemanja Matic frá Chelsea.

Hinn 28 ára gamli Matic skrifaði undir þriggja ára samning við United með möguleika á eins árs framlengingu. Talið er að félagið hafi borgað í kringum 40 milljónir punda fyrir Matic.

José Mourinho, knattspyrnustjóri United, þekkir vel til Matic en þeir unnu saman hjá Chelsea á árunum 2014-15. Serbinn varð tvívegis Englandsmeistari með Chelsea.

„Ég er hæstánægður með að vera kominn til Manchester United. Ég gat ekki hafnað því að vinna aftur með José Mourinho,“ sagði Matic í samtali við heimasíðu United.

Matic var úthlutað treyjunúmerinu 31 sem Bastian Schweinsteiger var síðast með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×