Íslenski boltinn

Gulli Jóns: Stjórnin þarf að spá í málin

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gunnlaugur Jónsson
Gunnlaugur Jónsson vísir/ernir
„Þetta var bara vont, eftir að hafa átt tiltölulega góðan fyrri hálfleik þangað til kom að síðustu fjórum mínútunum. Það var slæmt að fá þessi tvö mörk á sig rétt fyrir hálfleik,“ sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, eftir 6-0 tap sinna manna gegn Val á Hlíðarenda í kvöld. „Þetta sló okkur svolítið mikið út af laginu í seinni hálfleik. Þeir léku á alls oddi og við áttum í miklu basli.“

Mörkin tvö undir lok fyrri hálfleiks voru mikið rothögg og átti Gunnlaugur erfitt með að blása lífi í leikmenn í hálfleiksræðu sinni. „Já, þeir voru svolítið djúpt niðri eftir að hafa gert mjög vel megnið af fyrri hálfleik. Það var klaufalegt að gefa þessi tvö mörk, við þurfum að fara framar og reyna að koma til baka og þá er erfitt að eiga við Val.“

„Nei, ég held áfram svo lengi sem stjórnin treystir mér,“ sagði Gunnlaugur aðspurður um það hvort hann sé farinn að óttast stöðu sína sem þjálfari ÍA. „Stjórnin þarf að spá í málin eftir svona slæma útreið, en það eru punktar í fyrri hálfleik sem við getum nýtt í næsta leik.“

„Mér fannst andinn fyrir þennan leik mjög fínn, æfingarnar gengu vel, en sjálfstraustið er farið að minnka og það sást í þessum leik.“

ÍA fær KR í heimsókn í næstu umferð. Vesturbæjarliðið hefur verið á mikilli siglingu undanfarið og er erfið veiði fyrir Skagamenn. „Nú verðum við bara að snúa höndum saman og verðum fyrst og fremst að brotna ekki heldur halda sjó á næstu dögum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×