Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Valur - ÍA 6-0 | Leikur kattarins að músinni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Bjarni Ólafur Eiríksson, reyndasti leikmaður Vals.
Bjarni Ólafur Eiríksson, reyndasti leikmaður Vals. vísir/anton
Valsmenn styrkja stöðu sína á toppi Pepsi deildar karla með 6-0 sigri á botnliði ÍA. Þeir eru nú með átta stiga forskot á toppnum.

Fyrri hálfleikur byrjaði mjög rólega og það var í raun ekkert markvert sem gerðist í leiknum fyrr en á 44. mínútu þegar Patrick Pedersen skoraði og svo setti Guðjón Pétur Lýðsson boltann í netið aðeins mínútu seinna.

Seinni hálfleikur byrjaði frekar rólega og ef Skagamenn hefðu náð að setja mark hefði leikurinn getað horft allt öðruvísi við, en á 63. mínútu þá setti Eiður Aron Sigurbjörnsson gott skallamark og skoraði þetta mikilvæga þriðja mark.

Þá brustu allar varnir Skagamanna og mörkin runnu inn. Orri Sigurður Ómarsson skoraði á 74. mínútu, Sigurður Egill Lárusson bætti því fimmta við á 78. mínútu og Kristinn Ingi Halldórsson negldi síðasta naglann í kistu ÍA með sínu fyrsta deildarmarki í sumar á 89. mínútu.

Afhverju vann Valur?

Þeir voru einfaldlega miklu sterkari í seinni hálfleik. Mörkin tvö sem þeir náðu að setja inn rétt fyrir hálfleikinn voru svolítið rothögg fyrir Skagamenn og Valur spilaði svo mjög fínan sóknarbolta í seinni hálfleik og voru aldrei líklegir til þess að fá mark á sig.

Eftir þriðja mark Valsmanna var svo ekki aftur snúið og örlögin ráðin.

Hverjir stóðu upp úr?

Guðjón Pétur Lýðsson fær þann heiður að vera maður leiksins í dag. Hann átti tvær stoðsendingar og skoraði mjög örlagaríkt mark, á síðustu sekúndu fyrri hálfleiks. Eiður Aron Sigurbjörnsson átti einnig góðan dag hjá Valsmönnum.

Orri Sigurður Ómarsson verður svo að vera með í þessari upptalningu eftir glæsimark sem hann skoraði upp úr þurru af miðjum vallarhelmingi Skagamanna. Hann stóð sig einnig mjög vel í sínu aðal hlutverki sem einn af þremur hafsendum Vals.

Hvað gekk illa?

Það gekk allt illa hjá Skagamönnum í seinni hálfleik. Valsmenn völtuðu yfir þá trekk í trekk, og eins og sjá má á lokatölum þá áttu varnarmenn ÍA ekki góðan leik. Ingvar Þór Kale átti slæman leik í dag og þó hann hafi átt fínar vörslur inn á milli þá einkenndist leikur hans af furðulegum aðgerðum í kvöld.

Hvað gerist næst?

Valsmenn eiga leik á móti Íslandsmeisturum FH í Kaplakrika þriðjudaginn 8. ágúst. Það er þó möguleiki að þeim leik verði frestað eitthvað ef FH kemst áfram í Meistaradeild Evrópu á miðvikudagskvöld.

ÍA fá svo KR-inga í heimsókn á Norðurálsvöllinn á Akranesi. KR hafa verið á miklu skriði í deildinni undanfarið og mun sá leikur reynast þrautin þyngri fyrir Skagamenn ef marka má frammistöðu þeirra í kvöld.

Gunnlaugur Jónssonvísir/ernir
Gulli Jóns: Stjórnin þarf að spá í málin

„Þetta var bara vont, eftir að hafa átt tiltölulega góðan fyrri hálfleik þangað til kom að síðustu fjórum mínútunum. Það var slæmt að fá þessi tvö mörk á sig rétt fyrir hálfleik,“ sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, eftir leikinn. „Þetta sló okkur svolítið mikið út af laginu í seinni hálfleik. Þeir léku á alls oddi og við áttum í miklu basli.“

Mörkin tvö undir lok fyrri hálfleiks voru mikið rothögg og átti Gunnlaugur erfitt með að blása lífi í leikmenn í hálfleiksræðu sinni. „Já, þeir voru svolítið djúpt niðri eftir að hafa gert mjög vel megnið af fyrri hálfleik. Það var klaufalegt að gefa þessi tvö mörk, við þurfum að fara framar og reyna að koma til baka og þá er erfitt að eiga við Val.“

„Nei, ég held áfram svo lengi sem stjórnin treystir mér,“ sagði Gunnlaugur aðspurður um það hvort hann sé farinn að óttast stöðu sína sem þjálfari ÍA. „Stjórnin þarf að spá í málin eftir svona slæma útreið, en það eru punktar í fyrri hálfleik sem við getum nýtt í næsta leik.“

Ólafur Jóhannesson.vísir/hanna
Óli Jóh: Þægilegt eftir þriðja markið

„Ég er geysilega ánægður með leik minna manna, við vissum það að þetta væri þolinmæðisvinna. Eftir þriðja markið var þetta þægilegt,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, eftir leikinn.

Staða Vals er góð á toppi deildarinnar eftir að Stjarnan og Grindavík missa af stigum í þessari umferð, en Ólafur er ekki mikið að velta því fyrir sér. „Við klárum okkar leiki og það er markmiðið, en það hjálpar til að liðin sem eru nálægt okkur tapa stigum.“

„Við vorum hægir í fyrri hálfleik og þetta tók svolítið langan tíma, en eftir svona hálftíma þá kom aðeins meira tempó í leikinn. Tvö mörk undir lok hálfleiksins var náttúrulega geggjað og hjálpaði okkur mikið.“

Haukur Páll Sigurðssonvísir/Andri Marinó
Haukur Páll: Frábær spilamennska

„Ég er mjög ánægður með spilamennsku liðsins í heildinni, frábær spilamennska hjá Valsliðinu í dag,“ voru fyrstu viðbrögð Hauks Páls Sigurðssonar, fyrirliða Vals, eftir sigur sinna manna.

Leikurinn var mjög bragðdaufur í byrjun og var erfitt að spila hann, sagði Haukur. „Ég get ímyndað mér það að það hafi ekkert verið sérstakt (að horfa á fyrri hálfleik), sérstaklega svona fyrsta hálftímann. Það var erfitt að opna þá, þeir lágu mjög til baka og lokuðu svæðum mjög vel. Sem betur fer þá héldum við þolinmæði og náðum að opna þá og skora tvö góð mörk.“

„Hrikalega gaman að skora svona mörg mörk og halda hreinu, en aðalmálið eru þessi þrjú stig.“

Garðar Gunnlaugsson
Garðar Gunnlaugs: Missum þetta í eitthvað kjaftæði

Fyrirliði ÍA, Garðar Gunnlaugsson, var að vonum ósáttur eftir leikinn: „Ég er eiginlega bara orðlaus. Við missum þetta bara í eitthvað kjaftæði, fáum á okkur tvö mörk á tveggja mínútna kafla sem riðlaði okkar skipulagi og þeir opna okkur svo í seinni hálfleik.“

„Við förum inn í alla leiki til að vinna. Leikskipulagið var þannig að við ætluðum að liggja til baka, en það gekk ekki upp.“

KR-ingar eru næstu andstæðingar ÍA og þeir hafa verið að spila vel undafarið. Þessi spilamennska hjálpar liðinu ekki inn í þann leik. „Þetta er ekki auðvelt veganesti. Við erum á botninum og þá er ekkert annað í boði en að spyrna sér frá honum. Við þurfum að rífa okkur saman í andlitinu, það er ekkert flóknara en það. Það þurfa bara allir að gefa allt sitt í þann leik.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira