Erlent

Stúlkurnar fá að fylgja vélmenni sínu til Bandaríkjanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er sagður hafa beitt sér fyrir því að þeim yrði veitt vegabréfsáritun eftir að hann las fréttir um stúlkurnar.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er sagður hafa beitt sér fyrir því að þeim yrði veitt vegabréfsáritun eftir að hann las fréttir um stúlkurnar.
Sex táningsstúlkur frá Afganistan, sem meinað var tvisvar um vegabréfsáritun til Bandaríkjanna þar sem þær ætluðu að taka þátt í alþjóðlegri vélmennakeppni, munu fá að taka þátt í keppninni. Liði frá Gambíu hafði einnig verið neitað um vegabréfsáritun en ákvörðunni hefur einnig verið snúið við.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er sagður hafa beitt sér fyrir því að þeim yrði veitt vegabréfsáritun eftir að hann las fréttir um stúlkurnar og hvað þær höfðu lagt á sig til að taka þátt í keppninni og reyna að komast til Bandaríkjanna.

Sjá einnig: Sex táningsstúlkur fá ekki að fylgja vélmenni sínu til Bandaríkjanna

Samkvæmt frétt BBC var beiðni stúlknanna samþykkt eftir að beiðni barst frá utanríkisráðuneytinu. Talskona Trump segir beiðnina hafa komið frá honum.

Forsvarsmenn keppninnar, þar sem lið frá 157 löndum munu keppa í vélmennasmíði, segjast þakklátir ríkisstjórn Bandaríkjanna fyrir að tryggja liðunum frá Afganistan og Gambíu aðgang að keppninni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×