Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍBV - Breiðablik | Fimm leikir án sigurs hjá Blikum

Gabríel Sighvatsson skrifar
Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV.
Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV. VÍSIR/eyþór
ÍBV og Breiðablik mættust í hörkuleik á Hásteinsvelli í dag. Fyrirfram voru liðin á svipuðum stað í deildinni, rétt fyrir ofan fallsvæðin og það breyttist ekki í dag en liðin skiptu stigunum með sér í dag.

Höskuldur Gunnlaugsson kom Breiðablik yfir í fyrri hálfleik en Eyjamenn gáfust ekki upp. Í seinni hálfleik uppskáru þeir jöfnunarmark þegar Gunnar Heiðar Þorvaldsson jafnaði metin en hann kom inn á sem varamaður í hálfleik.

Þegar upp er staðið var jafntefli líklega sanngjörn niðurstaða en liðin sóttu á báða bóga og mátti lítið að skilja.

Af hverju varð jafntefli?

Færanýtingin hjá liðunum hefði getað verið betri. Spilamennska ÍBV var ekki sú besta í fyrri hálfleik en þeir voru klárlega betri aðilinn í seinni hálfleik og skoruðu þá markið sitt og hefði jafnvel getað stolið þessu í blálokin.

Breiðablik átti margar góðar sóknir en klúður hja mönnum eins og Tokic og Martin Lund kostuðu þá. Báðir fengu dauðafæri í leiknum til að komast í 2-0 og gera í raun út um leikinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá ÍBV má nefna Gunnar Heiðar Þorvaldsson en hann kom með mikinn kraft inn í leikinn og skoraði mark ÍBV í leiknum. Pablo var góður á miðjunni eins og vanalega og Sindri líka.

Gestirnir áttu ekki sinn besta leik en Gísli Eyjólfsson stóð vaktina ágætlega á miðsvæðinu og Höskuldur var alltaf hættulegur í föstum leikatriðum. Davíð Kristján átti margar góðar fyrirgjafir og stóð sig vel.

Hvað gekk illa?

Það er sama sagan hjá Eyjamönnum, þeir þurfa að nýta færin sín. Það er hægt að segja það sama um Breiðablik, það er ótrúlegt að sóknarmönnum þeirra hafi ekki tekist að skora.

Þá var vörnin ekki upp á sitt besta hjá liðunum heldur. Blikar komust oft inn fyrir þá í skyndisóknum og Eyjamenn fengu oft svæði til að skjóta á vallarhelmingi Breiðabliks.

Hvað gerist næst?

Næsti leikur ÍBV er gegn KA á Akureyri. Þar mæta þeir aftur liði sem er á svipuðum slóðum í deildinni og verður hart barist.

Breiðablik fær frí í næstu viku en þeir spiluðu við FH á mánudaginn, leikur sem átti að vera í 11. umferð. Þeir mæta líka KA í næsta leik og ef KA nær ekki í stig gegn ÍBV verður það fallbaráttuslagur. Einkunnir:

ÍBV (5-3-2): Halldór Páll Geirsson 7, Jónas Tór Næs 7, Hafsteinn Briem 5 (45. Mikkel Maigaard 6), Avni Pepa 5, Matt Garner 6, Felix Örn Friðriksson 6, Sindri Snær Magnússon 7, Pablo Punyed 7, Atli Arnarsson 6 (57. Arnór Gauti Ragnarsson 6), Kaj Leo í Bartalsstovu 3 (46. Gunnar Heiðar Þorvaldsson 8), Alvaro Montejo Calleja 7.

Breiðablik (4-3-3): Gunnleifur Gunnleifsson 7, Andri Rafn Yeoman 6 (54. Oliver Sigurjónsson 5), Damir Muminovic 6, Viktor Örn Margeirsson 7, Aron Bjarnason 6, Gísli Eyjólfsson 7 68. Sólon Breki Leifsson 6), Arnþór Ari Atlason 5 (76. Kolbeinn Þórðarson -), Davíð Kristján Ólafsson 8, Höskuldur Gunnlaugsson 8, Hrvoje Tokic 4, Martin Lund Pedersen 3.

Milos Milojevic er þjálfari Breiðabliksvísir/ernir
Milos Milojevic, þjálfari Breiðabliks var ekki nógu sáttur með eitt stig í dag.

„Nei, við förum í alla leiki til þess að vinna þá en á 70. mínútu hefði ég sætt mig við stigið, við vorum undir í baráttu og spilamennsku. Heilt yfir er ég ekki alltaf ánægður með eitt stig en ég virði stigið og maður á ekki að skammast sín við að koma til Eyja og fá eitt stig.“ sagði Milos.

Hvað var það eiginlega sem klikkaði hjá þeim í dag?

„Sólin fór illa með okkur eða eitthvað, við vorum kraftlausir og það er eina heimavinnan fyrir okkur á þessum tveimur vikum sem við fáum í frí að læra að spila leikinn í 95 plús mínútur. Annars voru flottir kaflar hjá okkur en rýr uppskera og það er ekki eitthvað sem við erum sáttir við en svona er fótboltinn, maður fær ekki alltaf það sem maður vill.“

Breiðablik er ekki á sérstaklega góðum stað eftir leikinn, þeir eru viðloðandi fallsvæðið eftir 11 leiki en Milos er viss um að þeir geti gert betur seinni hluta mótsins.

„Alls ekki, en þú færð ekki meira en það sem þú ert búinn að ávinna þannig að við erum búnir að vinna fyrir þessum 12 stigum. Ég bara skoða þetta betur þegar allir eru búnir að spila 11 leiki.“

„Já, ef ég hefði ekki trú á því þá myndi ég ekki vera hér þannig að ég er nokkuð viss um að við gerum betur seinni hluta mótsins.“

Gunnleifur Gunnleifsson fannst spilamennska sinna manna ekki verðskulda þrjú stig í dag.

„Maður þarf ekkert að skammast sín fyrir að taka eitt stig í Vestmannaeyjum, en við hefðum getað spilað betur og frammistaðan í seinni hálfleik var ekkert sérstök, þeir voru ekki að skapa sér mikið. Löngu innköstin og hornin eru hættulegust hjá þeim og við fáum færi til að klára leikinn 2-0.“

„Við þurftum að nýta þessa sénsa til að skora annað mark og svo fannst mér við hálf orkulausir í seinni hálfleik. Það var heitt og völlurinn þurr og margir að fá krampa en mér fannst  við geta spilað betur í seinni hálfleik.“ sagði Gunnleifur.

ÍBV jafnaði leikinn þegar korter lifði leiks en þar var að verki Gunnar Heiðar Þorvaldsson með skall eftir hornspyrnu

„Gunnar Heiðar er margreyndur sóknarmaður lunkinn. Hann er refur í boxinu og auðvitað þurfum við að passa vel upp á mann eins og hann en þetta var bara vel gert hjá þeim og gott mark. Svona gerist í fótbolta, það væri óeðlilegt ef menn gera engin mistök í leiknum. Við gerum þetta jafntefli saman sem lið, það skiptir ekki máli hvernig jöfnunarmarkið kom.“

Eins og áður sagði eru Blikar nálægt botni deildarinnar.

„Ég held að allir viti það að við erum búnir að vera í veseni þennan fyrri helming og við erum að reyna að fá vind í seglin hjá okkur. Það eru margir leikir sem hafa tapast á síðustu sekúndunum en við reynum að þétta raðirnar í fríinu og bæta okkur, svo tökum við seinni helminginn af krafti og vonandi getum við gert betur þá heldur en í fyrri helmingnum.“

Gunnar Heiðar Þorvaldsson var hetja Eyjamanna en hann kom inn á í hálfleik og tryggði liði sínu stig.

„Ég vil alltaf fá þrjú stig á heimavelli en miðað við hvernig þetta spilaðist, mér fannst þeir vera betri í fyrri hálfleik, þetta var ekki alveg að virka hjá okkur á miðjunni. Við löguðum það bara og mér fannst við mun betri í seinni og líklegri til að stela þessu í lokin.“

„Ég er rosalega ánægður með viðbrögðin hjá strákunum, ég kom inn á í hálfleik og reyndi að fá smá karakter og vilja og þeir svöruðu því mjög vel, við vorum betri í seinni og hefðum viljað stela þessu.“

Gunnar kann það alveg að skora mörk en hann hefur skorað þau ófá í gegnum tíðina.

„Þetta eru engin geimvísindi, þetta er bara fótbolti. Ég kann þetta alveg, maður hefur gert þetta áður en ég hefði viljað fá 3 stig“

Fókusinn hjá Eyjamönnum er á næsta leik gegn KA.

„Þessi deild er náttúrulega alveg fáránleg, það eru allir að vinna alla í þessu og þetta er ábyggilega mjög gaman fyrir alla aðdáendur en fyrir okkur leikmenn og þjálfara er það bara að duga eða drepast í hverjum einasta leik. Það er bara næsti leikur, KA á Akureyri og við ætlum okkur að fara í þann leik til þess að vinna hann.“ sagði Gunnar Heiðar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.