Íslenski boltinn

Óli Stefán: Einu stigi frá fyrsta markmiðinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur.
Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur. vísir/ernir
Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur sagði í samtali við Vísi eftir sigurinn á KA í Pepsi-deildinni að liðið væri einu stigi frá markmiði sínu nú þegar tíu umferðir eru liðnar af Íslandsmótinu.

„Ég reyni, þó það sé erfitt eftir því sem við söfnum fleiri stigum, að horfa ekki í töfluna. Ég reyni að ýta því frá mér. Eina sem skiptir máli er að við erum stigi frá okkar fyrsta markmiði og við leggjum allt í það að klára það í fyrri umferðinni," sagði Óli Stefán þegar Vísir ræddi við hann að leik loknum í kvöld.

Grindvíkingar hafa átt í töluverðum vandræðum undanfarið vegna meiðsla leikmanna og áttu í erfiðleikum með að halda uppi almennilegum æfingum á þeim tíma sem liðinn er frá síðasta leik.

„Ég reiknaði með taktleysi hjá okkur fyrstu 20-25 mínúturnar. Það er eðlilegt því við náum ekki að púsla saman æfingum á þeim hóp sem við höfum haft undanfarið. Það sem tók við er eitthvað það besta sem þetta lið hefur sýnt undir minni stjórn. Ég er svo ánægður með strákana. Þarna kemur baráttan og ástríðan allt í gegn og við verðskuldum þennan sigur allan daginn,“ sagði hæstánægður þjálfari Grindvíkinga.

„Við erum ekki með stóran hóp en ótrúlega kröftugan. Andlega erum við svo sterkir og þetta kemur mér ekkert á óvart. Ég hlakkaði til að spila með þetta lið sem ég var með í dag og þeir skiluðu einni bestu frammistöðu undir minni stjórn,“ bætti Óli Stefán við.

Leikmenn Grindavíkur fögnuðu vel og lengi með stuðningsmönnum sínum eftir leik en Óli Stefán sagði menn alls ekki farna fram úr sér þrátt fyrir gott gengi.

„Það er ekki erfitt að láta strákana einbeita sér að okkar markmiði. Þetta er svo vel samanstilltur hópur þannig að það er ekkert vandamál,“ sagði Óli Stefán að lokum


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×