Erlent

150 þúsund nýir meðlimir sagðir hafa gengið í Verkamannaflokkinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, er líklega ánægður með nýju flokkssystkini sín.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, er líklega ánægður með nýju flokkssystkini sín. Vísir/AFP
150 þúsund nýir meðlimir eru sagðir hafa gengið í breska Verkamannaflokkinn í kjölfar nýafstaðinna kosninga. Flokkurinn bætti þar við sig sögulegum fjölda þingsæta. Greint er frá þessu á vef Independent.

Richard Burgon, þingmaður Verkamannaflokksins, sagði að gríðarleg aukning hefði orðið á skráningu í flokkinn eftir að Íhaldsflokkur forsætisráðherrans, Theresu May, náði ekki meirihluta á þinginu. 150 þúsund nýir meðlimir eru taldir hafa skráð sig í flokkinn eftir að niðurstöður voru kunngjörðar.

Verkamannaflokknum hafði ekki verið spáð góðu gengi í kosningunum en niðurstöður kosninganna gera leiðtogahæfileikum Jeremy Corbyn nú hátt undir höfði.

Þá tóku leitarvélar einnig kipp en mikil aukning var á innslætti „Join Labour“ eða „Gerast meðlimur í Verkamannaflokknum“ í Google, sérstaklega þegar útgönguspár voru birtar.

Theresa May stendur nú í viðræðum við Lýðræðislega sambandsflokkinn, DUP, en enn er ekki ljóst hverjar niðurstöður þess samkomulags verða. Viðræðurnar munu halda áfram í vikunni.

Þá hefur Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, heitið því að kollvarpa hverri þeirri ríkisstjórn sem May kann að mynda. „Ég get enn þá orðið forsætisráðherra,“ var haft eftir Corbyn í dag.


Tengdar fréttir

Helstu ráðgjafar Theresu May segja af sér

Nick Timothy og Fiona Hill, tveir nánustu ráðgjafar Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, hafa sagt af sér í kjölfar ósigurs Íhaldsflokksins í nýliðnum kosningum í Bretlandi.

Ríkisstjórn May stendur veikum fótum

Útlit er fyrir minnihlutastjórn Íhaldsflokksins með stuðningi Lýðsræðislega sambandsflokksins á Norður-Írlandi í breska þinginu. Úrslit kosninganna voru sögð niðurlæging fyrir Theresu May forsætisráðherra. Óvissa um samninga Bretlands og Evrópusambandsins.

Flokkarnir hafa enn ekki komist að samkomulagi

Downing Street, skrifstofa forsætisráðuneytisins í Bretlandi, og Lýðræðislegi sambandsflokkurinn (DUP) sitja enn að samningum og hafa ekki enn komist að niðurstöðu um myndun minnihlutastjórnar. Í tilkynningu frá Downing Street í gær sagði að samningar um stjórnarsamstarf Íhaldsflokksins og Lýðræðislega sambandsflokksins væru í höfn. Í kjölfarið bárust tilkynningar frá báðum fylkingum um að svo væri ekki, að samningaviðræður stæðu enn yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×