Erlent

Fagna lífi þingkonunnar Jo Cox

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Bretar fagna lífi þingkonunnar Jo Cox þegar ár er liðið frá því að hún var myrt.
Bretar fagna lífi þingkonunnar Jo Cox þegar ár er liðið frá því að hún var myrt. Vísir/Getty
Ár er liðið frá því breska þingkonan Jo Cox var myrt. Fjölskylda hennar og vinir hvetja fólk til þess að standa að viðburðum alla helgina í þeim tilgangi að fagna lífi móðurinnar og þingkonu breska Verkamannaflokksins Jo Cox.

Fleira sem sameinar okkur en sundrar

Á vef breska ríkisútvarpsins BBC kemur fram að Jo Cox sjóðurinn standi fyrir frumkvæðinu en talsmenn hans segja að lagt sé aðaláherslu á inntakið í jómfrúarræðu þingmannsins um að það sé fleira sem sameini okkur en sundri.

Viðburðirnir, sem eru undir yfirskriftinni „hin mikilfenglega samkoma“, eru margvíslegir og verður meðal annars hægt að fara í lautarferð, á tónleika og á götulistahátíð þessa helgi til þess að fagna lífi Jo Cox sem í fyrra var skotin og stungin til bana af Thomas Mair. Hann hefur nú hlotið lífstíðarfangelsi.

Margmenni á viðburði til minningar um Jo Cox.Vísir/Getty


Þörf sé á því að koma saman í jákvæðni

Að sögn systur Jo Cox, Kim Leadbeater, verða viðburðirnir hvorki pólitískir né trúarlegir. Megintilgangurinn sé einungis sá að sameinast og fagna lífi Jo Cox sem var fjörtíu og eins árs gömul þegar hún var myrt. Leadbeater segist nema ákveðna örvæntingu í þjóðinni og að það sé mikil þörf á því að koma saman í jákvæðni.

Finna fyrir ástinni

Móðir þingmannsins, Jean Leadbeater, segir þessa helgi vera þeim afar þungbæra en það sem haldi þeim gangandi er styrkurinn sem þau fjölskyldan fái frá fólkinu og bætir við að þau „finni fyrir ástinni.“

Jo Cox átti tvö börn með eiginmanni sínum Brendan Cox. Hann segist fullur lotningar yfir frumkvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×