Erlent

Fimm ríki slíta stjórnmálasambandi við Katar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Yfirvöld í Katar hafa brugðist ókvæða við.
Yfirvöld í Katar hafa brugðist ókvæða við. Vísir/EPA
Fimm ríki hafa slitið stjórnmálasambandi við Katar og sakað yfirvöld þar í landi um að styðja hryðjuverkahópa. Umrædd ríki eru Sádí Arabía, Egyptaland, Barein, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Jemen.

Þannig greina Sádí arabískir fréttamiðlar frá því að yfirvöld þar í landi hafi lokað landamærum sínum við Katar. Hið sama er uppi á teningnum í hinum fjórum löndunum þar sem erindrekar Katar hefur verið gert að yfirgefa löndin hið snarasta.

Þetta sé gert vegna þess að yfirvöld í Katar styðji við „ýmis hryðjuverkasamtök og hópa sem vinni gegn hagsmunum Arabíuskagans,“ en þar er átt við hópa líkt og Bræðralag múslíma, Al-Kaída, Íslamska ríkið og hópa sem studdir eru af Írönum.

Þannig studdu yfirvöld í Katar til að mynda Bræðralag múslíma og egypska forsetann Mohamed Morsi árið 2014, ólíkt nágrannnalöndum sínum sínum og kölluðu yfirvöld í Sádí Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Barein sendiherra sína heim við það tilefni.

Yfirvöld í Katar hafa brugðist ókvæða við og segja að aðgerðir ríkisins séu „óréttlætanlegar“ og „byggi ekki á neinum staðreyndum.“ Þau hafa þvertekið fyrir að styðja hryðjuverkahópa með nokkrum hætti.

Einungis tvær vikur eru síðan að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, heimsótti Sádí Arabíu og innsiglaði varnarsamkomulag við yfirvöld þar í landi og hvatti ríki á Arabíuskaganum til þess að mynda bandalag gegn Íran.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×