Íslenski boltinn

Milos: Ég er enginn David Copperfield

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Milos Milojevic, nýráðinn þjálfari Breiðabliks, var í viðtali hjá Arnari Björnssyni, í kvöldfréttum Stöðvar tvö en þar fór hann yfir gang mála hjá sér undanfarna daga þegar hann hoppaði á milli tveggja liða í Pepsi-deildinni.

Milos sagði starfi sínu lausu hjá Víkingum á föstudaginn og réði sig síðan sem þjálfara Blika í dag. Hann var því aðeins í þrjá daga burtu frá Pepsi-deildinni.

„Ég heyrði fyrst frá þeim á laugardaginn og þetta var allt að gerast hratt,“ sagði Milos Milojevic í viðtalinu við Arnar Björnsson sem var tekið á fyrstu æfingu Serbans í Smáranum.

„Þetta var kannski ekki endilega það sem ég var að plana en ég er ánægður með þessa lendingu. Ég er spenntur fyrir þessu því ef ég væri ekki spenntur þá hefði ég ekki sagt já. Þar sem að ég sagði já þá sé ég að það er áhugavert verkefni í gangi. Þess vegna er ég ánægður að vera hér,“ sagði Milos.

En var hann ekkert að reyna að losna frá Víkingi þegar hann vissi af Blikastarfið væri laust?

„Nei, alls ekki. Ég veit að þeir voru í viðræðum við annan mann. Þeir komu til mín eftir að ég var búinn að segja að ég væri hættur í Víkinni. Ég er búinn að koma því frá mér af hverju ég hætti með Víkingi og ætla ekki að endurtaka það. Það er saga sem er búin og er búin að vera flott saga í níu ár. Ég er stoltur af því en núna er ég kominn til Breiðabliks og tilbúinn að tala um Breiðablik,“ sagði Milos en hvenær munu hans áherslur fara sjást á Blikaliðinu?

„Ég hugsa bara strax en hvort að það sjáist hundrað prósent strax er erfitt að segja. Ég er með enga töfra og er enginn David Copperfield. Ég er með áherslur sem þetta lið þarf á að halda. Þetta er flott lið sem kann að spila fótbolta. Liðið er með góðan grunn og ég tek við góðu búi af Arnari. Ég þarf bara að setja mín fingraför á liðið,“ sagði Milos.

Það er hægt að hlusta á allt viðtalið við Milos í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.