Íslenski boltinn

Milos: Ekki sá léttasti að eiga við

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sem kunnugt er hætti Milos Milojevic sem þjálfari Víkings R. í gær. Milos hafði verið í herbúðum Víkings í tæpan áratug og gengt ýmsum hlutverkum hjá félaginu.

Milos lenti saman við Hajrudin Cardaklija, markmannsþjálfara Víkings, eftir sigurleik gegn Haukum í 32-liða úrslitum Borgunarbikarsins á miðvikudaginn.

„Það skiptir engu máli hvort það er Cardaklija, þú eða bróðir minn. Ég fer eftir minni sannfæringu og stend og fell með henni,“ sagði Milos í samtali við Hörð Magnússon í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Ef ég er aðalþjálfari liðsins finnst mér eðlilegt að ég fái að ráða einhverju um hvernig um hegðun og hlutverk manna í liðinu er. Á einhverjum tímapunkti voru einhver prinsipp sem ég varð að verja. Ég er mjög samkvæmur sjálfum mér og vil fyrst og fremst hugsa um hagsmuni félagsins, síðan um leikmennina og loks um mig. Ég hef gert það öll þessi ár.

„Mér fannst vanta smá traust frá fólkinu sem stjórnar. Það var ekki það að það treysti mér ekki. Þau vildu hafa mig áfram en ég fann að það var ekki 100% traust.“

En er Milos of erfiður í samstarfi?

„Ég er mjög kröfuharður, fyrst og fremst með sjálfan mig. Ég vil að kröfur séu settar á alla. Ábyrgðarleysi skilar ekki góðu. Ég hugsa að ég sé ekki léttasti maður að eiga við en ég er mjög sanngjarn,“ svaraði Milos sem hefur verið orðaður við þjálfarastöðuna hjá Breiðabliki.

„Breiðablik er flott félag. Ég get ekki sagt þér núna hvað ég myndi segja ef þeir myndu hringja í mig. Ég er þjálfari, þetta er mitt starf og ég er tilbúinn að hlusta á alla. En það er ekki víst að ég taki á móti öllum tilboðum sem berast til mín,“ sagði Milos.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×