Erlent

The Sun greindi frá því að Filippus væri látinn

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Vonandi voru viðbrögð hjónanna við mistökum The Sun eitthvað á þessa leið.
Vonandi voru viðbrögð hjónanna við mistökum The Sun eitthvað á þessa leið. Vísir/Getty
„Filippus prins látinn 95 ára, hvernig lést hertoginn af Edinborg osfrv“

Þannig var fyrirsögn breska miðilsins The Sun sem birtist í nótt og stóð í nokkrar mínútur.

Í greininni var farið yfir ævi og störf Filippusar og talað um hann í þátíð. Nokkrir franskir miðlar féllu í gryfju The Sun og birtu að prinsinn væri látinn.

Filippus er þó enn sprelllifandi en ætlar að hætta að koma opinberlega fram. Vísir greindi frá því í morgun.

Orðrómurinn um andlát Filippusar fór á kreik eftir að starfsfólk bresku krúnunnar var kallað saman á fund í Buckinghamhöll. Strax grunaði miðla og almenning að stórra fregna væri að vænta og safnaðist fjöldi fólks saman fyrir utan höllina í morgun.

The Sun hefur ekki beðist velvirðingar á mistökunum en hefur áfram fylgst með gangi mála í morgun líkt og aðrir miðlar.

Svona birtist frétt The Sun í leitarniðurstöðum Google.Skjáskot

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×