Innlent

„Okkur ber að hjálpa þeim sem lifðu af“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Utanríkisráðherra ítrekaði í dag stuðning Íslands við fórnarlömb stríðsátakanna í Sýrlandi.
Utanríkisráðherra ítrekaði í dag stuðning Íslands við fórnarlömb stríðsátakanna í Sýrlandi. mynd/utanríkisráðuneytið
„Við getum ekki vakið þá til lífs sem fórust í Idlib í gær. En við getum og eigum að rannsaka þessa skelfilegu árás, leita réttlætis fyrir fórnarlömbin og refsa þeim sem bera ábyrgð á henni,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í ávarpi sínu á alþjóðlegri ráðstefnu um Sýrland sem haldin var í Brussel í dag.

Á ráðstefnunni ítrekaði Guðlaugur stuðning Íslands við fórnarlömb stríðsátakanna í Sýrlandi og lagði áherslu á þá afstöðu Íslands að þeir sem bera ábyrgð á stríðsglæpum sem framdir hafa verið í Sýrlandi verði dregnir til ábyrgðar.

Þá tilkynnti hann um að íslensk stjórnvöld myndu leggja 200 milljónir króna á ári til mannúðaraðstoðar í Sýrlandi og nágrannaríkjum til ársins 2020, til viðbótar við framlög til móttöku flóttamanna.

„Okkur ber að hjálpa þeim sem lifðu af og að gera það sem hægt er til að fórnarlömbunum fjölgi ekki,“ sagði Guðlaugur Þór.

Enn fremur áréttaði hann í ávarpi sínu að tryggja yrði aðgengi hjálparstarfsmanna og hjálpargagna til bágstaddra í Sýrlandi, og að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og aðrir hlutaðeigandi aðilar þrýstu á um að stríðandi fylkingar settust að samningaborðinu, því öðruvísi linnti hryllingnum í Sýrlandi ekki.


Tengdar fréttir

Á sjötta tug fórust í efnavopnaárásinni

Talið er að saríngasi hafi verið varpað á íbúa sýrlenska bæjarins Khan Sheikhoun. Sýrlenski herinn neitar því að hafa beitt efnavopnum. Stjórnarandstaðan fer fram á tafarlausa rannsókn öryggisráðs SÞ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×