Erlent

Ríkislögreglustjóri Svíþjóðar: „Ekkert bendir til að við séum með rangan mann í haldi“

Atli Ísleifsson skrifar
Alls létu fjórir lífið í árásinni og eru tíu manns slasaðir, sumir alvarlega.
Alls létu fjórir lífið í árásinni og eru tíu manns slasaðir, sumir alvarlega. Vísir/afp
Ríkislögreglustjóri Svíþjóðar segir ekkert benda til að lögregla sé með rangan mann í haldi eftir að vörubíl var ekið á gangandi vegfarendur á Drottninggatan í Stokkhólmi í gær. Dan Eliasson sagði að þvert á móti grunsemdir hafa styrkst eftir því sem rannsókninni vindur fram.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sænsku lögreglunnar í hádeginu. Þar var staðfest að einhvers konar eldfimur búnaður hafi fundist í stýrishúsi vörubílsins, þó að lögregla vilji enn ekki fullyrða að um sérstakan sprengjubúnað væri að ræða.

Lögregla staðfesti að maðurinn sem handtekinn var í úthverfi norður af Stokkhólmi í gærkvöldi sé 39 ára úsbeskur ríkisborgari sem öryggislögregla hafi áður fengið upplýsingar um. Hann hafi þó ekki verið til sérstakrar rannsóknar. Ekki er vitað hvað maðurinn hafi dvalið lengi í Svíþjóð og ekki var gefið upp hvort hann hafi áður fengið dvalarleyfi eða sótt um hæli.

Á blaðamannafundinum kom jafnframt fram að víðtæk rannsókn standi enn yfir og ekki sé útilokað að fleiri hafi komið að árásinni.

Engar upplýsingar liggja fyrir um hvort maðurinn hafi haft í hyggju fleiri árásir.

Alls létu fjórir lífið í árásinni og eru tíu manns slasaðir, sumir alvarlega. Lögregla hefur ekki viljað gefa uppi um kyn eða aldur fórnarlamba, enn sem komið er. Enn sé unnið að því að bera kennsl á lík og upplýsa aðstandendur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×