Erlent

Bandamenn Assad hóta hefndum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Gervihnattamynd sem sýnir Shayrat-herflugvöllinn í Homs.
Gervihnattamynd sem sýnir Shayrat-herflugvöllinn í Homs. Vísir/AFP
Bandamenn Bashar al-Assad sýrlandsforseta sögðu í dag að árás Bandaríkjahers á herflugvöll sýrlenska stjórnarhersins á föstudag hafi farið yfir „rauðar línur“ og að þeir muni bregðast við öllum árásum á Sýrland af fullum krafti.

Yfirlýsingin kemur frá sameiginlegri stjórnstöð Rússa, Írana og annarra bandamanna sýrlensku ríkisstjórnarinnar.

„Með árásinni á Sýrland fóru Bandaríkin yfir allar rauðar línur. Héðan í frá munum við bregðast við öllum árásum og öllum yfirgangi þvert á rauðar línur og Bandaríkin vita vel hver viðbragðsgeta okkar er,“ segir í yfirlýsingunni

Bandaríkjastjórn upplýsti meðal annars stjórnvöld í Rússlandi, Bretlandi, Frakklandi og Kína um árásina á föstudag fyrirfram. Að mestu leyti tókst að rýma herstöðina fyrir árásina. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, var einnig kunnugt um árásina fyrirfram.


Tengdar fréttir

Árásin reynir á samband Bandaríkjanna við Rússa

Bandaríkjaher réðst á sýrlenskan herflugvöll. Sex hermenn féllu. Gengið er út frá því að ráðist hafi verið á bæinn Khan Sheikhoun frá flugvellinum og efnavopnum beitt. Rússar bregðast illa við árásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×