Erlent

Tóku hundruð af lífi og grófu í fjöldagröf við Mosul

Samúel Karl Ólason skrifar
Af þeim tugum fjöldagrafa sem samtökin hafa skilið eftir sig í Írak og í Sýrlandi er þessi mögulega sú stærsta.
Af þeim tugum fjöldagrafa sem samtökin hafa skilið eftir sig í Írak og í Sýrlandi er þessi mögulega sú stærsta. Vísir/AFP
Vígamenn Íslamska ríkisins myrtu hundruð manna og vörpuðu ofan í holu nærri Mosul. Fangar, hermenn og konur voru meðal þeirra sem tekin voru af lífi og varpað ofan í fjöldagröfina. Þá var jarðsprengjum komið fyrir í og við gröfina þegar vígamennirnir voru reknir þaðan í febrúar.

Af þeim tugum fjöldagrafa sem samtökin hafa skilið eftir sig í Írak og í Sýrlandi er þessi mögulega sú stærsta, en um er að ræða náttúrulega holu, svokallaða sinkhole, nærri Khafsa, skammt frá Mosul.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch ræddu við menn sem urðu vitni að ódæðum vígamannanna.

Ómögulegt er að segja til um hve margir voru teknir af lífi og varpað ofan í holuna, en vatn rennur um botn hennar og því gæti orðið erfitt að finna og grafa upp allar líkamsleifar.

Þá hjálpa sprengjurnar ekki til. Blaðamaður og þrír hermenn létu lífið vegna einnar slíkrar sprengju þann 25. febrúar.

Eins og áður segir hafa tugir fjöldagrafa fundist á svæðinu, en ekki er hægt að rannsaka þær að svo stöddu. HRW kalla eftir því að yfirvöld í Írak girði í kringum fjöldagrafirnar svo þær verði látnar í friði þar til sérfræðingar taka þær til skoðunnar og hægt verður að aftengja sprengjurnar sem þar má finna.

Vígamenn ISIS fylltu upp í holuna um vorið 2015, en heimamenn höfðu þá verið að kvarta undan lykt frá henni. Heimamenn sögðu HRW að mögulega hefðu þúsundum líka verið varpað ofan í holuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×