Erlent

Franskur ráðherra segir sóknina gegn höfuðvígi ISIS hefjast á næstu dögum

Atli Ísleifsson skrifar
Hart hefur verið sótt að liðsmönnum ISIS að undanförnu, bæði í Sýrlandi og Írak.
Hart hefur verið sótt að liðsmönnum ISIS að undanförnu, bæði í Sýrlandi og Írak. Vísir/AFP
Sókn bandalagsþjóða gegn sýrlensku borginni Raqqa mun hefjast á næstu dögum. Þetta er haft eftir franska varnarmálaráðherranum Jean-Yves Le Drian, en Raqqa hefur verið helsta vígi hryðjuverkasamtakanna ISIS.

Le Drian segir frá þessu í samtali við sjónvarpsstöðina CNews.

„Við getum í raun sagt að búið sé að umkringja Raqqa og að baráttan um Raqqa muni hefjast á næstu dögum. Þetta kemur til með að verða mjög hörð barátta, en barátta sem skiptir sköpum,“ segir ráðherrann.

Fyrr í vikunni greindi bandaríska varnarmálaráðuneytið frá því að bandalagsþjóðir hafi í fyrsta sinn flogið orrustuþotum til Raqqa-héraðs.

Hart hefur verið sótt að liðsmönnum ISIS að undanförnu og eru írakskar öryggissveitir og hersveitir Kúrda á góðri leið með að hrekja síðustu liðsmenn ISIS frá stórborginni Mosúl, sem samtökin náðu á sitt vald árið 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×