Enski boltinn

Pires: United rétta liðið og Mourinho rétti stjórinn fyrir Pogba

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Paul Pogba og José Mourinho.
Paul Pogba og José Mourinho. vísir/getty
Robert Pires, fyrrverandi leikmaður Arsenal og franska landsliðsins í fótbolta, telur José Mourinho, knattspyrnustjóra Manchester United, vera rétta manninn til að fá það besta út úr dýrasta fótboltamanni heims, Paul Pogba. Þá þarf hann tíma til að aðlagast á Old Trafford.

Pogba kostaði Manchester United tæplega 94 milljónir punda síðasta sumar þegar hann var keyptur frá Juventus. Hann hefur ekki alveg staðið undir kaupverðinu en Pires hvetur menn til að vera þolinmóðir.

„Það er mikil pressa á honum vegna kaupverðsins en það má ekki gleyma að þetta er ungur leikmaður. Í Frakklandi tölum við um að hann þurfi tíma til að aðlagast,“ segir Pires í viðtali við Sky Sports.

„Það er mikilvægt fyrir Pogba að fá smá tíma því enska úrvalsdeildinni er mjög erfið. Það eru ekki bara leikirnir sem eru erfiðir heldur hver einasta æfing.“

Pogba er búinn að skora sjö mörk og gefa fimm stoðsendingar í 41 leik á þessari leiktíð en hann á bara eftir að vera betri að mati Pires því hann er undir handleiðslu rétta mannsins.

„Ég þekki Paul og veit að hann mun standa sig. Manchester United var gott val hjá honum og hann getur lært mikið af því að vinna með José Mourino,“ segir Robert Pires.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×