Erlent

Dregur úr stuðningi við flokk Wilders

atli ísleifsson skrifar
Geert Wilders.
Geert Wilders. Vísir/AFP
Ný skoðanakönnun í Hollandi bendir til að nokkuð hafi fjarað undan stuðningi við Frelsisflokk popúlistans Geert Wilders. Þingkosningar fara fram í Hollandi þann 15. mars.

Kannanir síðustu vikna hafa flestar bent til þess að Frelsisflokkurinn verði stærsti flokkur landsins í kosningunum, en í nýrri könnun I&O Research mælist flokkurinn sá þriðji stærsti með 12,6 prósent stuðning.

VVD-flokkur forsætisráðherrans Mark Rutte mælist stærstur, með 15,1 prósent fylgi, en Demókratar 66 með 13,1 prósent fylgi.

Í frétt Aftonbladet segir að ef þetta verða niðurstöður kosninganna myndi flokkur Rutte fá 24 þingsæti, en Demókratar 66 og Frelsisflokkur Wilders tuttugu hvor.

Sjá einnig:Allt sem þú þarft að vita um hollensku þingkosningarnar

Barist er um 150 þingsæti og eru alls 28 flokkar í framboði. Ekki er um neinn þröskuld að ræða sem gerir það að verkum að margir flokkar eru á hollenska þinginu.

Alexander Pechtold, formaður Demókrata 66, hefur barist einna harkalegast gegn málflutningi Wilders varðandi innflytjendur og Evrópusamstarfið á síðustu mánuðum.

VVD-flokkurinn og Verkamannaflokkurinn hafa setið saman í ríkisstjórn í Hollandi á yfirstandandi kjörtímabili.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×