Erlent

Rutte segir núll prósent líkur á að hann muni vinna með Wilders

atli ísleifsson skrifar
Mark Rutte og Geert Wilders árið 2012.
Mark Rutte og Geert Wilders árið 2012. Vísir/afp
Hollenski forsætisráðherrann Mark Rutte vakti Twitter-síðu sína úr margra ára dvala í dag og byrjaði á því að skjóta á hægri popúlistann Geert Wilders. Þingkosningar fara fram í Hollandi þann 15. mars.

„Núll prósent, Geert. Núll prósent. Það. Mun. Ekki. Gerast,“ skrifaði Rutte á Twitter, í fyrstu færslu sinni frá árinu 2011.

Skoðanakannanir benda til að Wilders og flokkur hans, PVV, kunni að verða stærsti flokkur landsins í kosningunum. Þó þykir útilokað að flokkurinn nái nægilega mörgum þingsætum til að mynda meirihluta. 150 þingmenn eiga sæti á hollenska þinginu.

Rutte hefur áður sagt að hann og frjálslyndi flokkur hans, VVD, muni ekki mynda samsteypustjórn með PVV, en Wilders hefur fullyrt að það kunni mögulega að gerast.

„Það er ekki hægt að leggja 2,5 milljónir atkvæða til hliðar,“ sagði Wilders í samtali við WNL op Zondag í dag, en orðin fengu Rutte til að dusta rykið af Twitter-reikningnum.

Aftonbladet greinir frá því að 28 flokkar bjóði fram til þings að þessu sinni og telji sérfræðingar að stjórnarmyndun verði erfið þar sem mögulega þurfi fjórir til fimm flokkar að ná saman um myndun stjórnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×