Enski boltinn

Aðeins einn miðjumaður hefur komið að fleiri mörkum en Gylfi Þór undanfarin tvö ár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson lagði upp fyrra mark Swansea í langþráðum sigri í gærkvöldi þegar liðið lagði Crystal Palace á útivelli, 2-1, í 20. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Stoðsendinguna má sjá í spilaranum hér að ofan.

Gylfi sendi aukaspyrnu beint á kollinn á miðverðinum Alfie Mawson sem sneiddi boltann í netið í fyrri hálfleik en þökk sé sigrinum er Swansea nú aðeins einu stigi frá öruggu sæti. Fallbaráttan heldur þó áfram.

Íþróttamaður ársins 2016 er nú búinn að skora fimm mörk og leggja upp önnur sex eftir stoðsendinguna á Mawson í gærkvöldi, en Gylfi Þór er næst markahæstur og stoðsendingahæstur í Swansea-liðinu í ensku úrvalsdeildinni.

Sjá einnig:Gylfi Þór á janúarlista með Griezmann, Payet, Van Dijk og Aubameyang

Síðan að Gylfi Þór gekk aftur í raðir Swansea sumarið 2014 hefur hann verið algjörlega frábær. Hann skoraði sjö mörk og lagði upp tíu tímabilið 2014/2015 og á síðustu leiktíð skoraði hann ellefu mörk og lagði upp önnur tvö. Þar af skoraði hann níu mörk eftir áramót sem urðu til þess að Swansea hélt sæti sínu í deildinni.

Staðan er einfaldlega þannig að Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður Íslands, er einn besti miðjumaður ensku úrvalsdeildarinnar og einn sá allra mest skapandi þegar kemur að því að búa til mörk. Aðeins einn miðjumaður, sem er þó í raun framherji, hefur komið að fleiri mörkum síðan 2014 en Gylfi Þór.

Það er Sadio Mané, leikmaður Liverpool og fyrrverandi leikmaður Southampton. Síðan 2014 hefur hann komið að 43 mörkum en Gylfi Þór hefur komið að 42 mörkum (23 mörkum og 19 stoðsendingum). Þetta kemur fram í leikskýrslu BBC um leikinn í gær en tölfræðiþjónustan Opta Stats heldur utan um þessa tölfræði.

Sigurinn hjá Swansea í gærkvöldi var sá fyrsti síðustu fimm leikjum en það var búið að tapa fjórum í röð áður en kom að sigrinum á lærisveinum Sam Allardyce í gær.


Tengdar fréttir

Þrír Íslendingar í úrvalsliði VG

Blaðamenn VG völdu þrjá leikmenn og þjálfara íslenska landsliðsins í úrvalslið Norðurlandaþjóðanna árið 2016 en aðeins einn Norðmaður kemst á varamannabekkinn.

Gylfi komst í fámennan hóp

Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið í fyrsta eða öðru sæti í kjörinu á Íþróttamanni ársins undanfarin fjögur ár, tvisvar í efsta sæti og tvisvar í öðru sæti.

Enn sætara í annað skiptið

Gylfi Þór Sigurðsson er Íþróttamaður ársins 2016 í árlegu kjöri Samtaka íþróttafréttamanna. Hrafnhildur Lúthersdóttir og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir urðu næstar á eftir í kjörinu sem var lýst í Hörpu í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×