Framtíð miðjumanns Arsenal, Jack Wilshere, hefur verið upp í loftinu en hann hefur setið að samningaborðinu með forráðamönnum félagsins.
Þær viðræður hafa ekki enn borið árangur en Wilshere er handviss um að lending muni nást. Núverandi samningur hans við félagið rennur út í sumar.
„Ég er búinn að ræða þessi mál við stjórann og ég er pottþéttur á því að við munum klára þetta,“ sagði Wilshere en hann vill vera áfram hjá félaginu.
Hann kláraði 90 mínútur fjórða leikinn í röð í gær er Arsenal skellti Crystal Palace. Hann var í láni hjá Bournemouth í fyrra en virðist vera búinn að vinna sér sæti í liði Arsenal á nýjan leik.
Wilshere sannfærður um að hann verði áfram hjá Arsenal
Henry Birgir Gunnarsson skrifar
