Hafsteinn gekk til liðs við ÍBV eftir tímabilið 2014. Hann var í stóru hlutverki hjá Eyjaliðinu og var besti leikmaður þess í fyrrasumar. Hafsteinn varð bikarmeistari með ÍBV á síðasta tímabili.
„Mig langar að þakka Eyjamönnum fyrir minn tíma þar. Mjög þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri á að spila fyrir jafn einstakt félag og ÍBV er. Framtíðin er björt í Eyjum,“ skrifar Hafsteinn á Instagram. Hann lék alls 66 deildar- og bikarleiki fyrir ÍBV og skoraði átta mörk.
Hafsteinn, sem er 26 ára, hefur einnig leikið með HK, Val, Haukum og Fram.
ÍBV endaði í 9. sæti Pepsi-deildarinnar á síðasta tímabili.