Íslenski boltinn

Guðmunda Brynja: Fengum stærsta leikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmunda á ferðinni í bikarúrslitaleiknum í fyrra.
Guðmunda á ferðinni í bikarúrslitaleiknum í fyrra. vísir/andri marinó
„Ég held að við séum líklega með stærsta leikinn. Þetta verður verðugt verkefni,“ sagði Guðmunda Brynja Óladóttir, fyrirliði Selfoss, eftir að dregið var í 16-liða úrslit Borgunarbikars kvenna í höfuðstöðvum KSÍ í hádeginu.

Selfyssingar drógust gegn Val sem tjaldaði miklu til fyrir tímabilið. Guðmunda og stöllur hennar hafa komist í bikarúrslit undanfarin tvö ár en töpuðu í bæði skiptin fyrir Stjörnunni. Guðmunda segir markmiðið í ár sé að fara alla leið.

„Jú, algjörlega. Það er gott að fá alvöru leik strax. Við spiluðum við þær í bikarnum í fyrra og það var hörkuleikur og ég á ekki von á öðru núna,“ sagði Guðmunda sem er nokkuð sátt með stöðuna á Selfoss-liðinu sem er með þrjú stig eftir fyrstu tvær umferðirnar í Pepsi-deildinni.

„Við héldum sama kjarna, fengum tvo mjög góða útlendinga og erum með mjög gott lið. Við erum hæfilega sáttar með byrjunina á tímabilinu,“ sagði Guðmunda.

Eins og áður sagði hafa Selfoss og Stjarnan mæst í bikarúrslitum undanfarin tvö ár. En hvar mætast þau núna?

„Við Adda [Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar] vorum að tala um að við myndum mætast á Selfossi í undanúrslitum. En mig langar helst að mæta þeim aftur á Laugardalsvelli og vinna þær,“ sagði Guðmunda í léttum dúr að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×