Harry Kane skoraði bæði mörk Tottenham í 2-0 sigri á Aston Villa í gær og er þar með búinn að ná landa sínum Jamie Vardy í toppsæti listans yfir markahæstu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar.
Harry Kane og Jamie Vardy hafa nú báðir skoraði 19 mörk á þessu tímabili en báðir hafa þeir spilað 29 leiki fyrir lið sín. Tottenham og Leicester eru einmitt tvö efstu lið ensku úrvalsdeildarinnar í dag og þar hafa þessir tveir markaskorar skilað mörgum stigum til sinna liða.
Jamie Vardy var með mjög gott forskot á Tottenham-leikmanninn en það hefur breyst á síðustu mánuðum enda fann Harry Kane markaskóna sína á nýjan leik.
Harry Kane skoraði aðeins eitt mark í fyrstu níu umferðunum og var þá þegar orðinn átta mörkum á eftir Vardy. Kane skoraði þrennu í 5-1 sigri á Bournemouth og skoraði síðan 4 mörk í næstu þremur leikjum á eftir. Þá munaði bara fimm mörkum á þeim félögum (13-8).
Um áramótin munaði fjórum mörkum á köppunum, Jamie Vardy var þá með 15 mörk en Kane hafði skorað 11 mörk.
Jamie Vardy hefur hinsvegar "aðeins" náð að bæta við fjórum mörkum á árinu 2016 og á sama tíma hefur Harry Kane skorað tvöfalt meira en Vardy.
Harry Kane vantar nú bara tvö mörk til að jafna árangur sinn í fyrra þegar hann skoraði 21 mark og varð annar markahæsti maður ensku úrvalsdeildarinnar á eftir Sergio Agüero hjá Manchester City (26 mörk).
Harry Kane og Jamie Vardy munu ekki aðeins berjast um gullskóinn í ensku úrvalsdeildinni heldur eru þeir einnig í keppni um sæti í byrjunarliði enska landsliðsins á EM í Frakklandi.
Það eru líka fleiri með í baráttunni, Romelu Lukaku hjá Everton er bara einu marki á eftir þeim og það eru bara þrjú mörk í Sergio Agüero hjá Manchester City.
Jamie Vardy hefur ekki skorað í síðustu þremur leikjum Leicester en getur bætt úr því á móti Newcastle í kvöld.
Markahæstu menn ensku úrvalsdeildarinnar 2015-16:
Harry Kane, Tottenham 19
Jamie Vardy, Leicester 19
Romelu Lukaku, Everton 18
Sergio Agüero, Manchester City 16
Riyad Mahrez, Leicester 15
Odion Ighalo, Watford 14
Olivier Giroud, Arsenal 12
Diego Costa, Chelsea 11
Jermain Defoe, Sunderland 11
