Erlent

Sagður hafa skipulagt árásir í Frakklandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Franskir lögregluþjónar.
Franskir lögregluþjónar. Vísir/EPA
Leyniþjónustan í Úkraínu fullyrðir að franskur ríkisborgari sem handtekinn hafi verið í landinu í síðasta mánuði, hafi ráðgert stóra hryðjuverkaárás í Frakklandi á meðan á Evrópumótinu í Fótbolta stæði, en mótið hefst á föstudag. Ekki liggur þó fyrir að mótið sjálft hafi verið skotmark.

Maðurinn er tuttugu og fimm ára gamall og var hann handtekinn á landamærum Úkraínu og Póllands með mikið magn vopna í sínum fórum.

Talsmaður leyniþjónustunnar segir við BBC að hann hafi lagt á ráðin um fimmtán árásir í landinu og mun hann vera rekinn áfram af öfgafullri þjóðerniskennd. Hann er sagður hafa verið með fjölda skotvopna, hvellhettur og um 125 kíló af sprengiefninu TNT.

Talsmaðurinn segir manninn hafa skipulagt árásir á bænahús gyðinga og múslima, brýr og fjölfarnar götur. Hann hefur verið ákærður fyrir smygl og hryðjuverk. Hann er ekki sagður hafa verið með sakaskrá.

Samkvæmt Sky News hafði maðurinn verið undir eftirliti lögreglu frá því í desember.

Hér að neðan má sjá myndband sem var tekið þegar maðurinn var handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×