Enski boltinn

Allardyce hneykslið: Fundað um framtíð Stóra Sam

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sam Allardyce gæti misst starfið.
Sam Allardyce gæti misst starfið. vísir/getty
Enska knattspyrnusambandið er með mál Sam Allardyce, landsliðsþjálfara Englands, til rannsóknar en The Telegraph birti í gærkvöld myndband af honum samþykkja 400.000 punda greiðslu fyrir að beygja reglur enska sambandsins.

Tveir blaðamenn í dulargervi viðskiptajöfra frá austurlöndum fjær vildu fá aðstoð Stóra Sam við að komast framhjá eignarhaldi þriðja aðila við kaup á leikmönnum en það hefur verið bannað á Englandi síðan 2008.

Allardyce sagðist vera tilbúinn að hjálpa þeim auk þess sem hann nýtti líka tækifærið er mennirnir sátu og drukku bjór til að hnýta í Roy Hodgson, forvera sinn í starfi þjálfara enska landsliðsins, og Gary Neville, aðstoðarmann hans.

Greg Clarke, nýr formaður enska knattspyrnusambandsins, og Martin Glenn, framkvæmdastjóri þess, munu hittast nú í fyrramálið til að fara yfir hvort þetta sé jafnalvarlegt og það lítur út fyrir að vera, að því fram kemur á vef BBC.

„Ég vil heyra allar staðreyndir málsins frá öllum áður en ég tek ákvörðun uum hvað við gerum. Það er bara réttlæti að við komumst til botns í málinu áður en við tökum ákvörðun. Í málum eins og þessum þarf að anda rólega,“ segir Greg Clarke í samtali við Daily Mail.

Sam Allardyce tók við starfi þjálfara enska landsliðsins í sumar eftir að Roy Hodgson sagði af sér í kjölfar taps gegn Íslandi í 16 liða úrslitum EM 2016.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×