Tyrknesk stjórnvöld hafa rekið 87 starfsmenn leyniþjónustu landsins úr starfi vegna gruns um tengsl við misheppnaða valdaránstilraun í landinu í júlí. Lögregla hefur hafið rannsókn í máli 52 þeirra.
Tyrkneski ríkisfjölmiðillinn Andalou greinir frá þessu.
Tugþúsundir opinberra starfsmanna hefur vikið frá störfum í kjölfar valdaránstilraunarinnar en þetta eru fyrstu starfsmenn leyniþjónustunnar sem eru látnir fara.
Leyniþjónustan hefur verið harðlega gagnrýnd af Tyrklandsstjórn fyrir að hafa ekki varað við að valdaránstilraunin væri í pípunum.
Klerkurinn Fethullah Gülen er af Tyrklandsstjórn grunaður um að hafa stýrt aðgerðum í valdaránstilrauninni en hann hefur sjálfur neitað því. Hann er í sjálfskipaðri útlegð og býr í í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum.
Tyrklandsstjórn heldur hreinsunum sínum áfram

Tengdar fréttir

„Lágmark að Ísland láti í sér heyra“
Dómarafélag Íslands vill að íslensk stjórnvöld beiti sér í málefnum 1.700 tyrkneskra dómara sem hnepptir voru í gæsluvarðhald í tengslum við hreinsanir Erdogans forseta. Margir þeirra dómara sem nú sitja í fangelsi í Tyrklandi eru vinir íslenskra starfsbræðra þeirra.

Ítrekaði mikilvægi þess að virða sjálfstæði dómstóla
Lilja Alfreðsdóttir fundaði með tyrkneskum starfsbróður sínum, Mevlüt Çavuşoğlu, í New York í dag.

Segir Tyrki og Bandaríkin íhuga árás á Raqqa
Recep Tayyip Erdogan segir Obama hafa stungið upp á þeim möguleika á fundi forsetanna í morgun.