Erlent

Áhrifamenn í flokki Trump munu styðja rannsókn á meintum afskiptum Rússa

Anton Egilsson skrifar
Donald Trump og fulltrúadeildarþingmaðurinn Paul Ryan.
Donald Trump og fulltrúadeildarþingmaðurinn Paul Ryan.
Tveir áhrifamenn innan Repúblikanaflokksins segjast munu styðja rannsókn á meintum afskiptum rússneskra stjórnvalda á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. BBC greinir frá. 

Greint var frá því á laugardag að bandaríska leyniþjónustan, CIA, hefði komist að þeirri niðurstöðu í leynilegu minnisblaði að rússnesk stjórnvöld hafi skipt sér af forsetakosningunum í Bandaríkjunum til að hjálpa Donald Trump að sigra í kosningunum. Trump hefur neitað ásökununum staðfastlega. 

Fulltrúadeildarþingmaðurinn Paul Ryan og öldungadeildarþingmaðurinn Mitch McConnell, báðir flokksmenn í Repúblikanaflokknum, segja að öll afskipti erlendra aðila í kosningunum séu óásættanleg.  Leyniþjónustunefndir muni rannsaka ásakanirnar. 

„Allar árásir erlendra aðila er varða netöryggi Bandaríkjanna eru óhugnanlegar og ég fordæmi allar tilraunir til slíks,” segir McConnell og bætti jafnframt við: „Rússar eru ekki vinir okkar.”

Ryan tekur í sama streng í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér á Twitter en þar segist hann styðja áframhaldandi rannsóknir á netárásum erlendra þjóða. 

„Við verðum að berjast af krafti gegn netárásum erlendra aðila á lýðræðið okkar.” Segir Ryan og bætir við að öll afskipti rússneskra stjórnvalda séu sérstaklega varasöm enda hafi þau ítrekað gert í því að grafa undan hagsmunum Bandaríkjanna. 

Ekki skuli þó kasta vafa á niðurstöðu kosninganna

Hann telur þó að ekki skuli kasta vafa á afgerandi niðurstöður kosninganna. 

„Á meðan við reynum að varðveita lýðræðið frá erlendum áhrifum skulum við þó ekki kasta vafa á hina skýru og afgerandi útkomu kosninganna.” 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×