Enski boltinn

Bjarni: Gylfi að nálgast þann stall sem Eiður Smári var á

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson varð síðastliðinn sunnudag markahæsti leikmaður Swansea í ensku úrvalsdeildinni frá upphafi þegar hann skoraði 26. markið sitt fyrir liðið úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur gegn stórliði Chelsea.

Hann er nú kominn upp fyrir tvo skæðustu framherja Swansea-liðsins í úrvalsdeildinni frá upphafi. Spánverjinn Michu skoraði 20 mörk í 50 leikjum og Fílabeinsstrendingurinn Wilfried Bony skoraði 25 mörk í 54 leikjum.

„Þetta er náttúrlega ótrúlegt afrek þó Swansea gefi ekki alveg bestu myndina af þessu því það hefur ekki verið lengi í efstu deild. Að ná þessum áfanga í liði eins og Swansea er samt gott,“ segir Bjarni Guðjónsson, fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður í fótbolta. Fréttin birtist fyrst í kvöldfréttum Stöðvar 2 en hana má sjá í spilaranum hér að ofan.

„Hann er miðjumaður í liði í einni sterkustu deild Evrópu, ef ekki þeirri sterkustu. Hann er að leggja upp mörk og gera líka svo miklu meira. Núna, í þeim leikjum sem liðnir eru af mótinu, er hann alltaf að skjóta á markið. Hann er alltaf síógnandi. Fyrsta snertingin hans er þannig að hann getur alltaf skotið og ógnað,“ segir Bjarni.

Gylfi Þór skorar markið sögulega.vísir/getty
Ómetanlegur hæfileiki

Gylfi Þór hefur í heildina skorað 34 mörk og lagt upp 21 og þannig komið með beinum hætti að 55 mörkum í aðeins 148 úrvalsdeildarleikjum sem miðjumaður hjá Swansea og Tottenham. Bjarni bendir á að nóg sé til af duglegum og fjölhæfum leikmönnum eins og Gylfa en þessi hæfileiki að búa til mörk er ekki á allra færi og gefur Swansea mikið.

„Þetta er gríðarlega mikivægt. Það sem Gylfi gerir líka er að hann getur spilað hvaða stöðu sem er eins og um helgina þar sem hann byrjar leikinn sem framherji. Hann getur spilað þar og í holunni og líka aftar sem átta. Það er alveg til fullt af svona leikmönnum til en það er alveg ómetanlegt að vera með svona leikmann sem getur svo líka skorað,“ segir hann.

Ronald Koeman vildi fá Gylfa í sínar raðir til Everton í sumar og var tilbúinn að borga fyrir hann 25 milljónir punda. Hafnfirðingurinn gerði frekar nýjan fjögurra ára samning við Swansea og er aðalmaðurinn þar. En með hversu góðu liði gæti Gylfi spilað?

Eiður Smári Guðjohnsen er markahæsti Íslendingurinn í ensku úrvalsdeildinni.Vísir/AFP
Nálgast Eið Smára

„Hann gæti klárlega farið í eitt af liðunum sem eru að spila meiri og betri fótbolta - eitt af þessum stórliðum. Það myndi enginn taka eftir því að hann væri lélegri en leikmenn í þeim liðum. Ég held að Gylfi sé einn af þeim leikmönnum sem verði betri í því meira krefjandi aðstæðum sem hann fer í og þar sem hann fær betri leikmenn í kringum sig. Hann færi auðveldlega með það að spila í einum af fimm til sex sterkustu liðunum á Englandi,“ segir Bjarni.

Gylfi Þór raðaði inn níu mörkum eftir áramót á síðustu leiktíð og komst upp fyrir Heiðar Helguson á listanum yfir markahæstu Íslendinga í úrvalsdeildinni. Þar trónir á toppnum Eiður Smári Guðjohnsen með 55 mörk í 211 leikjum.

„Gylfi er, kannski fyrir einhverjum tíma síðan, kominn á svipaðan stað og Eiður Smári var á þegar hann var upp á sitt besta,“ segir Bjarni Guðjónsson.

Alla fréttina má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Gylfi á skotskónum í jafntefli gegn Chelsea

Gylfi Þór kom Swansea aftur inn í leikinn í í 2-2 jafntefli gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í dag en þetta var fyrsta jafntefli Chelsea í vetur eftir þrjá sigurleiki í röð í upphafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×