Erlent

Skylmingakonan Ibtihaj Muhammad: „Að klæðast hijab er stór hluti af því hver ég er“

Birta Svavarsdóttir skrifar
Ibtihaj Muhammad er fyrsta bandaríska íþróttakonan sem keppir á Ólympíuleikunum íklædd hijab.
Ibtihaj Muhammad er fyrsta bandaríska íþróttakonan sem keppir á Ólympíuleikunum íklædd hijab. Vísir/Getty
Skylmingakonan Ibtihaj Muhammad er fyrsta konan til að keppa á Ólympíuleikunum fyrir hönd Bandaríkjanna íklædd hijab, hefðbundinni höfuðslæðu múslimakvenna. Muhammad, sem er fædd og uppalin í New Jersey í Bandaríkjunum, hefur verið hluti af bandaríska landsliðinu í skylmingum síðan 2010 og er sem stendur í áttunda sæti yfir bestu skylmingakonur heims og í öðru sæti í Bandaríkjunum. Þá hefur hún einnig kennt forsetafrú Bandaríkjanna, Michelle Obama, skylmingar.

Í samtali við BBC Sport segist Muhammad vera spennt að skora á þær staðalímyndir sem fólk hefur um konur og íslam. Hún segir það vera sérstaklega mikilvægt í ljósi umræðunnar innan stjórnmálaumhverfis Bandaríkjanna í dag, en Donald Trump, forsetaefni Repúblikanaflokksins, hefur í kosningabaráttu sinni meðal annars sagst vilja láta reka alla múslima úr landi.

Muhammad segir að það ríki mikill misskilningur í heiminum varðandi íslam. Til að mynda sé það val hvers og eins að ganga með slæðu. „Að klæðast hijab er stór hluti af því hver ég er, og minnir mig á mikilvægi þess að vera í tengslum við trú mína og uppruna. Þetta er mitt persónulega val.“

Ibtihaj Muhammad var útnefnd af tímaritinu Time sem einn af 100 áhrifamestu einstaklingum ársins 2016. Þá hefur henni einnig verið líkt við bandaríska boxarann og mannréttindatalsmanninn Muhammad Ali, en hann lést nú fyrr á árinu. Ibtihaj Muhammad keppir fyrir hönd bandaríska skylmingalandsliðsins í dag, 8. ágúst, í Ríó.

Hér að neðan má sjá viðtal við Ibtihaj hjá bandaríska spjallþáttastjórnandanum og grínistanum Stephen Colbert. Þau munda einnig sverðin og takast á í bráðskemmtilegum bardaga þar sem stutt er í grínið hjá þeim báðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×