Enski boltinn

L´Equipe: Paul Pogba verður leikmaður Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba talar hér við íslensku landsliðsstrákanna.
Paul Pogba talar hér við íslensku landsliðsstrákanna. Vísir/Getty
Hið virta franska íþróttablað L´Equipe slær því upp á heimasíðu sinni í kvöld að ekki standi nú í vegi fyrir því að Paul Pogba verði leikmaður Manchester United.

Samkvæmt heimildum L´Equipe hafa allir aðilar tengdir kaupunum náð samkomulagi og franski landsliðsmaðurinn verður því á miðju Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á komandi tímabili.

L´Equipe segir frá því að endanlega verði gengið frá þessu á næstu dögum og Paul Pogba verður því með United-liðinu frá fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni.

Manchester United þurfti að hækka tilboð sitt úr 101 milljón evra upp í 120 milljónir evra og forráðamenn Juventus sættust á það. 120 milljónir evra eru 100 milljónir punda og 16,2 milljarðar íslenskra króna.

Hinn 23 ára gamli Paul Pogba verður með þessum kaupum dýrasti knattspyrnumaður heimsins og hoppar upp fyrir hinn velska Gareth Bale á þeim lista.

Paul Pogba mun því snúa aftur til Old Trafford en hann var síðast leikmaður Manchester United fyrir fjórum árum.

Paul Pogba spilaði fjögur tímabil með Juventus á Ítalíu og varð ítalskur meistari öll fjögur árin. Pogba skoraði 28 mörk í 124 leikjum í ítölsku deildinni.

Pogba var í stóru hlutverki hjá franska landsliðinu sem fór alla leið í úrslitaleikinn á EM í Frakklandi og skoraði meðal annars í sigri á Íslandi í átta liða úrslitum keppninnar. Pogba hefur alls skorað 6 mörk í 38 landsleikjum.

Paul Pogba hoppaði hátt þegar hann skoraði á móti Íslandi.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×