Erlent

Obama um skotárásina í Orlando: Áminning um það hversu auðvelt er að nálgast skotvopn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Barack Obama Bandaríkjaforseti hvatti bandaríska þingið til þess að draga úr aðgengi að hættulegum skotvopnum í ávarpu sínu til bandarísku þjóðarinnar.
Barack Obama Bandaríkjaforseti hvatti bandaríska þingið til þess að draga úr aðgengi að hættulegum skotvopnum í ávarpu sínu til bandarísku þjóðarinnar. Vísir/Getty
„Þetta fjöldamorð er enn frekari áminning um það hversu auðvelt það er fyrir hvern sem er að nálgast skotvopn sem gerir þeim kleyft að skjóta fólk í skólum, kvikmyndahúsum, kirkjum eða skemmtistöðum,“ sagði Barack Obama er hann ávarpaði þjóð sína eftir mannskæðustu skotárás í sögu Bandaríkjanna í Orlando í nótt.

Þetta var í fimmtánda sinn á sjö ára forsetatíð sinni sem Obama ávarpaði þjóð sína eftir skotárás. Kallaði hann eftir því að Bandaríkjaþing myndi grípa til aðgerða til þess að draga úr aðgengi almennings að öflugum skotvopnum. Hefur Obama, reynt án árangurs, að herða skotvopnalöggjöf í Bandaríkjunum og gagnrýndi hann þingið fyrir aðgerðarleysi sitt í ávarpi sínu í dag.

„Að gera ekkert í þessu er ákvörðun,“ sagði Obama sem hefur fyrirskipað að bandaríska fánanum verði flaggað í hálfa stöng við Hvíta húsið, sem og við allar opinberar byggingar í Bandaríkjunum, til minnningar um fórnarlömb árásanna.

50 eru látnir og minnst 53 eru særðir eftir að hinn 29 ára gamli Omar Mateen hóf skotárás. Mateen er sagður hafa gengið inn á skemmtistað LGBT fólks, sem heitir Pulse, í Orlando klukkan sex í morgun að íslenskum tíma, miðnætti að staðartíma, og hafið þar skothríð.

Obama sagði árásina hafa verið meira en árás á skemmtistað heldur árás á „stað þar sem fólk kom til þess að dansa, syngja og lifa lífinu sínu. Þetta var staður samkenndar þar sem fólk kom saman til þess að krefjast réttar síns.“

Lofaði Obama því að FBI, bandaríska alríkislögreglan myndi njóta allra krafta bandarísku alríkisstjórnarinnar til þess að rannsaka skotárásina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×